Kanna möguleika kjarnorkuknúinna skipa

Flutningaskip frá Maersk.
Flutningaskip frá Maersk. AFP

Danski skipaflutningarisinn Maersk hyggst nú, í samstarfi við bresku rannsóknarstofuna Lloyds Register, kanna möguleika þess að innleiða kjarnorku sem orkugjafa flutningaskipa fyrirtækisins í Evrópu, að því er segir í tilkynningu frá Lloyds Register. 

Í rannsókn félaganna verður fýsileiki verkefnisins meðal annars kannaður út frá lagalegum sem og tæknilegum þáttum, en haft er eftir Ole Graa Jakobsen flotastjóra Maersk að ef vel til takist, geti kjarnorka leyst hefðbundið jarðefnaeldsneyti af hólmi og því hugsanlega orðið helsti orkugjafi fraktskipaflotans í náinni framtíð. 

Fyrirhugað er að koma fyrir litlum kjarnakljúfum um borð í nokkrum skipum, að því er segir í frétt Reuters, en þeir eru kraftminni og þarfnast þar að auki minna eldsneytis en hefðbundnir kjarnakljúfar.

Ekki ný af nálinni

Kjarnaknúin skip eru þó langt frá því að vera ný af nálinni, en algengt er að skip sem notuð eru til langferða, eða í hernaðarlegum tilgangi, s.s. flugmóðurskip, ísbrjótar og kafbátar, séu knúin með kjarnorku. 

Kjarnaknúin flutningaskip hafa þó hingað til ekki verið talinn fýsilegur kostur hingað til, en fyrsta slíka skipið var hannað í Bandaríkjunum árið 1962 og hét NS Savannah. Rekstur skipsins þótti ekki hagkvæmur og var notkun þess því fljótlega hætt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert