Stöðvuðu flugumferð á þýskum flugvöllum

Köln Bonn flugvöllurinn í Þýskalandi.
Köln Bonn flugvöllurinn í Þýskalandi. AFP

Loftslagsaðgerðasinnar efndu til mótmæla á fjórum þýskum flugvöllum í dag og stöðvuðu flugumferð í stutta stund áður en þeir voru handteknir.

Aðgerðasinnahópurinn „Letzte Generation“ eða síðasta kynslóðin segir að meðlimir hópsins hafi efnt til mótmæla á flugvöllunum í Köln-Bonn, Nürnberg, Berlín og Stuttgart með borðum sem á stóð „Olían drepur“.

Flugvallarekstraraðilar á flugvellinum í Nürnberg og Köln-Bonn sögðu að stöðva hafi þurft flugumferð í tvær klukkustundir vegna aðgerða lögreglu en aðgerðasinnar tóku sér stöðu á flugbrautunum.

Á flugvöllunum í Berlín og Stuttgart höfðu mótmælin ekki áhrif á flugumferð þar sem lögreglan fjarlægði fljótt aðgerðasinna af vettvangi.

Lögreglan staðfesti í samtali við AFP-fréttaveituna að þeir átta aðgerðasinnar sem tóku þátt í mótmælunum hafi allir verið handteknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert