Þýskt kexveldi biðst afsökunar á nauðungarvinnu

Bahlsen er einn helsti kexframleiðandi í Evrópu.
Bahlsen er einn helsti kexframleiðandi í Evrópu. AFP/Julian Stratenschulte

Þýska kexveldið Bahlsen hefur beðist afsökunar á „sársaukafullum“ niðurstöðum nýrrar skýrslu sem sýnir að fyrirtækið notaði margfalt fleiri nauðungarverkamenn en áður var talið á nasistatímanum.

Skýrslan var unnin í kjölfar þess að erfingi kexveldisins fullyrti árið 2019 að fyrirtækið hafi „borgað nauðungarverkamönnum jafn mikið og Þjóðverjum og komið vel fram við þá“ í seinni heimsstyrjöldinni. Ummælin vöktu mikla reiði.

Í skýrslunni sem unnin er af tveimur sagfræðingum kemur hinsvegar fram að að næstum 800 verkamenn, margir frá Póllandi og Úkraínu, hafi verið neyddir til að vinna fyrir fyrirtækið. Áður hafði verið talið að þeir hefðu verið á bilinu 200 og 250.

Ófyrirgefanleg hegðun

Í yfirlýsingu sagði Bahlsen fjölskyldan niðurstöður skýrslunnar „óþægilegar og sársaukafullar“ og lýsti yfir eftirsjá yfir því að fyrirtækið „hafði ekki horfst í augu við þennan erfiða sannleika fyrr en núna“.

„Við sem fjölskylda spurðum ekki að augljósu spurningunni um hvernig fyrirtækið okkar komst í gegnum seinni heimstyrjöldina,“ sagði í yfirlýsingunni á þriðjudag.

Fyrirtækið sem var stofnað í lok 19. aldar notaði nauðungarvinnuna til að framleiða skammta fyrir þýska hermenn í stríðinu.

„Forfeður okkar nýttu sér kerfið á nasistatímanum,“ sagði fjölskyldan og bætti við að hegðun fyrirtækisins hafi verið „ófyrirgefanleg“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert