Úkraínumenn leggja undir sig Súdzha

6. ágúst fóru úkraínskar hersveitir inn fyrir landamæri Rússlands og …
6. ágúst fóru úkraínskar hersveitir inn fyrir landamæri Rússlands og eru þar enn. AFP/Roman Pilipey

Úkraínski herinn hefur hefur nú lagt undir sig rússneska bæinn Súdzha í Kúrsk-héraði, að sögn Volodimír Selenskís, forseta Úkraínu. Rússar ætla að senda aukinn herafla til að verjast árásinni.

Selenskí sagði á samfélagsmiðlum að herforingjar hefðu upplýst hann um að „frelsun bæjarins Súdzha frá rússneska hernum“ væri komin í höfn.

Rúmlega vika er síðan að úkraínskar hersveitir réðust inn í Rússland.

Rússar senda aukinn herafla

Rússar ætla að senda fleiri hermenn til að verja nágrannahéraðið Belgorod vegna árásarinnar í Kúrsk. Þetta sagði Andrei Belousov, varnarmálaráðherra Rússlands, fyrr í dag.

Úkraínumenn hófu sókn sína inn í Kúrsk-hérað 6. ágúst og segjast hafa hertekið nokkra tugi þorpa.

Um er að ræða umfangsmestu hernaðaraðgerðir óvinaríkis sem gerð hefur verið á rússneskri grundu frá tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Brynvarður bíll Úkraínumanna keyrir inn yfir landamærastöð í Rússlandi.
Brynvarður bíll Úkraínumanna keyrir inn yfir landamærastöð í Rússlandi. AFP/Roman Pilipey

Búið að lýsa yfir neyðarástandi

Rússneski herinn hefur undirbúið „markvissar aðgerðir“ til að verja Belgorod-hérað fyrir árásum Úkraínumanna, sagði Andrei Belousov á fundi með ráðamönnum, þar á meðal Vjatsjeslav Gladkov, héraðsstjóra Belgorod.

Þessar aðgerðar fela með í sér að aukinn herafli verður sendur í héraðið. Í gær lýst héraðsstjórinn yfir neyðarástandi Belgorod og í dag lýsti Rússland yfir neyðarástandi í Belgorod.

Skrifstofa fyrir herstjórnina í Kúrsk

Úkraínumenn hafa sett á fót sérstaka skrifstofu í Kúrsk-héraði fyrir herstjórn sína.

„Stofnuð hefur verið skrifstofa herforingja sem á að halda uppi lögum og reglu og sinna forgangsþörfum íbúa á yfirráðasvæðum,“ sagði Oleksandr Sirskí, sem er yf­ir­maður allra herja Úkraínu, við Selenskí á fundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert