Kaþólskur prestur stunginn af 16 ára dreng

Írskir lögregluþjónar að störfum.
Írskir lögregluþjónar að störfum. AFP/Paul Faith

Kaþólskur herprestur að nafni Paul Murphy særðist alvarlega í stunguárás fyrir utan herstöð í írsku borginni Galway í gærkvöldi. Lögreglan segir að grunur leiki á um hryðjuverk.

Guardian greinir frá.

Árásarmaðurinn var vopnaður hnífi og réðst á Murphy sem sat í bíl fyrir utan herstöðina. Murphy flúði inn í herstöðina en var eltur og stunginn nokkrum sinnum.

Vaktmenn á svæðinu skutu viðvörunarskotum og beittu kylfu til að yfirbuga árásarmanninn þar til lögregla mætti á staðinn og handtók hann.

Árásarmaðurinn róttækur á netinu 

Áverkar Murphy eru alvarlegir en ekki lífshættulegir. 

Árásarmaðurinn er sextán ára gamall drengur. Hann er talinn hafa verið róttækur á netinu og tjáð þar óánægju sína varðandi hlutverk írskra friðargæsluliða í Miðausturlöndum. Unnið er að því að rannsakar færslur hans á samfélagsmiðlum. 

Írskir hermenn eru þátttakendur í friðargæsluverkefnum Sameinuðu þjóðanna í Líbanon, Sýrlandi og víðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert