Tveir bandarískir geimfarar hafa verið fastir á Alþjóðlegu geimstöðinni í rúmar tíu vikur en upprunalega áttu þeir aðeins að dvelja þar í átta daga.
Flugvéla- og geimfaraframleiðandinn Boeing og NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, hafa til lok ágúst til að ákveða sig hvernig þau ætla að koma þeim aftur til jarðar, en þá gætu þau þurft að leita á náðir helsta samkeppnisaðila Boeing, SpaceX.
Geimfararnir Barry „Butch“ Wilmore og Sunita „Suni“ Williams frá NASA héldu í ferð me[ Boeing Starliner, nýrri geimskutlu Boeing, Alþjóðlegur geimstöðinni (ISS) þann 5. júní.
Wilmore og Williams áttu dvelja á geimstöðinni í aðeins átta daga en nú eru dagarnir vissulega orðnir aðeins fleiri, 72.
Og það gæti vel verið að þau þurfi að dvelja þarna fram í febrúar.
Gerist þetta vegna þess að bilun kom í ljós í þrýstiaflshreyfli geimskutlunnar.
Starliner er fyrsta mannaða geimfar úr smiðju Boeing en fyrir um áratugi gerði Boeing samning við NASA um að smíða geimför handa stofnuninni. Um er að ræða tilraunaflug til þess að búa geimfarið undir stærra verkefni á næsta ári þar sem það á að ferja fólk til og frá ISS.
Þessari geimferð var reyndar ekki heitið hnökralaust. Henni var frestað 7. maí rétt fyrir flugtak vegna bilunar í loftloka og síðan aftur tveimur vikum síðar vegna helíumleka. Og síðan var henni enn og aftur frestað, þá loks til 5. júní. Ekki liggur fyrir hvort þessar bilanir tengist biluninni í hreyflinum.
Fulltrúar NASA sögðu á blaðamannafundi á miðvikudag að stofnunin hefði gögn úr geimfarinu enn til skoðunar. Aðalvandinn varðaði framdriftarbúnað í geimskipinu og óljóst væri hvort geimfararni kæmust lifandi heim ef þeir reyndu að snúa til baka með Starliner.
NASA og Boeing ákveða sig nú hvernig þau ætla að skila geimförunum heim og í raun er aðeins tvennt í stöðunni: annað hvort senda þau geimfararana heim í Starliner, sem verður vonandi kominn í lag, eða leita á náðir geimferðarisans SpaceX, sem er í eigu Elons Musks. Hið síðarnefnda myndi bæta nokkrum mánuðum við dvöl þeirra.
NASA segir ákvörðunina munu liggja fyrir um lok ágúst, en hún átti upprunalega að liggja fyrir um miðjan mánuð.
„Við erum að nálgast þann stað þar sem við ættum virkilega að fara að taka ákvörðun í síðustu vikunni í ágúst, ef ekki fyrr,“ sagði Ken Bowerox, aðstoðarforstjóri hjá geimferðadeild NASA. Hann sagði að geimfararnir nýttu aukatímann í ISS sem best. „En ég er viss um að þau séu spennt að fá ákvörðun, rétt eins og við hin.“
„Afar heiðarlegar samræður“ séu þá í gangi milli Boeing og NASA.
Ef Boeing og NASA ákveða að leita á náðir SpaceX gætu geimfarar úr fjögurra manna Crew-9 verkefninu hjálpað hinum strönduðu ferðalöngum að komast heim.
SpaceX og Nasa stefna á að skjóta Crew 9 í himingeiminn þann 24. september. Til þess að geta komið Crew-9 að ISS þyrfti að leggja Starliner frá bryggju – hvort sem geimfarið væri mannað eður ei.
NASA segist vera reiðubúin í að senda aðeins tvo geimfara út Crew-9, frekar en fjóra eins og stóð til, svo nægt pláss sé um borð í geimskutlunni fyrir Boeing-geimfarana.
En þá myndu Butch og Suni ekki snúa heim fyrr en í febrúar og í raun liðsinna geimförum Crew-9 í þeirra erindagjörðum í hinu svarta húmi.
En fyrst geimfararnir eru þegar um borð í geimstöðinni hafa þeir nýtt tímann í að sinna ýmsu viðhaldi og virðast í raun njóta þessa aukatíma í ISS, að sögn Joe Acaba, yfirgeimfara NASA.
„Við Butch höfum verið hérna áður og þetta er eins og að koma heim,“ sagði geimfarinn Suni Williams í streymi á blaðamannafundi í júlí.
„Það er frábært að vera hérna uppi, þannig að ég kvarta ekki.“