Santos sagður játa sök

George Santos sætir nú ákæru fyrir fjölda meintra brota en …
George Santos sætir nú ákæru fyrir fjölda meintra brota en meðal þess sem komist hefur í hámæli af svikastarfsemi hans er að stinga fé undan úr sjóði sem safnað var handa dauðvona hundi fyrrverandi hermanns. AFP

George Santos, fyrrverandi þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, er sagður munu játa sök á mánudag þegar hann mætir í dómsal í tengslum við meint fjársvik.

Frá þessu greinir bandaríska dagblaðið New York Times og segja að tveimur lögmönnum nokkurra vitna í málinu hafi verið tjáð af saksóknurum að Santos hygðist játa sök. Hann hafi þá gert samkomulag við saksóknara en skilyrði þess liggja enn ekki fyrir.

Santos var lát­inn víkja af þingi síðasta haust vegna ým­issa hneykslis­mála sem hann er tengd­ur. Demó­krat­inn Tom Su­ozzi tók sæti Santos í full­trúa­deild banda­ríska þingsins.

Ákærður í 23 liðum

Santos hefur meðal annars verið ákærður fyr­ir auðkenn­isþjófnað og að hafa logið að kjörstjórn. Í janúar samþykkti mik­ill meiri­hluti þing­manna, þar á meðal 100 Re­públi­kan­ar, í at­kvæðagreiðslu að víkja Santos frá þing­störf­um. Ákæruliðirnir eru 23 talsins.

Hann er einnig sagður hafa borgað skuld­ir og keypt merkja­vör­ur í eig­in þágu gegn­um kred­it­kort fólks sem lagði hon­um til fé í kosn­inga­bar­áttu sína og þá er hon­um gefið að sök að hafa svikið tölu­verðar fjár­hæðir frá stuðnings­mönn­um sín­um í gegn­um frjáls fé­laga­sam­tök sem aldrei voru til.

Times segja að tveir aðrir heimildarmenn sínir sem hefðu mikla þekkingu á málinu hefðu einnig staðfest að Santos ætlaði að játa á sig fjársvik. Annar þeirra hafi sagt að Santos myndi gera grein fyrir glæpum sínum þegar hann tæki til máls í dómsal á mánudag.

Hann getur samt enn skipt um skoðun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert