50 þúsund halda til Chicago á landsfund demókrata

Landsfundurinn hefst á morgun.
Landsfundurinn hefst á morgun. AFP/Getty Images/Kevin Dietsch

Landsfundur demókrata hefst á morgun í Chicago í Illinois-ríki og vonast flokksmenn til þess að fundurinn tryggi áframhaldandi meðvind með Kamölu Harris forsetaframbjóðanda. Joe Biden Bandaríkjaforseti tekur til máls annað kvöld.

Búist er við að hátt í 50 þúsund manns muni mæta á landsfundinn og þar af um 4.000 kjörmenn.

Landsfundurinn mun standa yfir fram á fimmtudag og mun flokkurinn reyna að koma fram sem ein heild í kjölfar þess að Biden dró framboð sitt til baka fyrir rúmum mánuði síðan.

Búist er við að hátt í 50 þúsund manns mæti.
Búist er við að hátt í 50 þúsund manns mæti. AFP/Saul Loeb

„Fyrir fólkið, fyrir framtíðina okkar“

Þema fundarins er „Fyrir fólkið, fyrir framtíðina okkar.“ Demókratar ætla að halda því fram að framboð Harris og Tim Walz, varaforsetaefni hennar, sé í þágu frelsis og framtíðar, en um leið verður reynt að sýna fram á afrek Biden-stjórnarinnar.

Þá verður reynt að mála þá mynd að Donald Trump muni draga Bandaríkin aftur í fortíðina, vinni hann kosningarnar.

Má gera ráð fyrir því að flokkurinn leggi mikla áherslu á aðgengi kvenna að fóstureyðingum. 

New York Times greinir frá því að Planned Parenthood, sem rek­ur heilsu­gæslu­stöðvar fyr­ir kon­ur í Banda­ríkj­un­um, hyggst vera færanlega heilsugæslu í nálægð við fundinn þar sem boðið verður upp á gjaldfrjálsar fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir.

Undirbúningurinn er mikill fyrir landsfundinn.
Undirbúningurinn er mikill fyrir landsfundinn. AFP/Getty Images/Joe Raedle

Barack Obama tekur til máls

Venjulega eru frambjóðendurnir formlega útnefndir af flokkum sínum á landsfundum enþað er undantekning á því í tilfelli Harris. Kjörmenn demókrata útnefndu Kamölu Harris formlega á netheimum 6. ágúst.

Á næstu dögum munu nokkrir þungavigtarmenn ávarpa fundinn.

Þar á meðal Barack Obama og Bill Clinton, fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna, Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og tveir æðstu demókratar Bandaríkjaþings, Chuck Schumer, leiðtogi meirihluta öldungadeildarinnar, og Hakeem Jeffries, leiðtogi demókrata í fulltrúadeildinni.

Fundurinn verður haldinn í United Center.
Fundurinn verður haldinn í United Center. AFP

Margt líkt með landsfundinum árið 1968

Það er gaman að rifja upp hliðstæður milli landsfundar demókrata árið 1968 og þess sem hefst á morgun. Þá gengu demókratar á landsfund í kjölfar þess að Lyndon B. Johnson tilkynnti þjóðinni að hann myndi ekki sækjast eftir útnefningu demókrata og þar með endurkjöri.

Fundurinn var þá einnig í Chicago og þá var einnig stríð á fjarlægum slóðum að valda meiriháttar innanflokksátökunum hjá demókrötum.

Árið 1968 var Víetnamstríðið mikið vandamál fyrir Johnson og núna er stríðið fyrir botni Miðjarðarhafs mikið átakamál innan flokksins.

Gert ráð fyrir mótmælum

Gert er ráð fyrir þúsundum mótmælenda fyrir utan landsfund demókrata í vikunni en litlar líkur eru á því að þau muni valda jafn miklum óeirðum og árið 1968 þegar meðal annars þurfti að beita táragasi gegn mótmælendum og ofbeldi braust út.

Hubert Humphrey, varaforseti Johnson og þáverandi forsetaframbjóðandi demókrata, gekk út af landsfundinum árið 1968 í veikari stöðu en þegar hann gekk inn á hann.

Demókrataflokkurinn virðist þó mun sameinaðri nú en þá og ólíklegt er að Kamala Harris muni fara veikari út af landsfundinum. Það er algengt að frambjóðendur bæti við sig fylgi í kjölfar landsfunda og verður áhugavert að sjá hvort að það gerist í þessu tilfelli.

Harris er aðeins með 1,4% forskot á Donald Trump á landsvísu samkvæmt RealClear Politics og henni veitir því ekki af því að styrkja stöðu sína enn frekar.

NPR

Politico

New York Times

RealClear Polling

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert