Hamas segir vopnahlé „tálvon“

Biden kveðst vongóður um vopnahlé en ekki eru allir á …
Biden kveðst vongóður um vopnahlé en ekki eru allir á sama máli og forsetinn. AFP

Háttsettur embættismaður innan Hamas-samtakanna segir engar framfarir hafa orðið á vopnahlésviðræðum, þrátt fyrir fögur orð Joe Biden Bandaríkjaforseta.

Eftir tveggja daga viðræður í Katar, sem Bandaríkin höfðu aðkomu að, sagði Biden að vopnahlé væri nær en nokkru sinni fyrr.

Sagði skrifstofa forsætisráðherra Ísraels, Benjamíns Netanjahús, sömuleiðis að samninganefnd Ísraels hefði lýst yfir „hóflegri bjartsýni“ um að samningaviðræður stefndu í rétta átt.

Í samtali við BBC sagði embættismaður Hamas aftur á móti að engum árangri hefði verið náð í viðræðunum þrátt fyrir fögur fyrirheit Bandaríkjanna og Ísraels og sagði sáttasemjara í viðræðunum einungis vera að „selja blekkingar“.

Aukinn þrýstingur

Ísraelski herinn hóf herferð á Gasa til að „útrýma Hamas“ eftir árás hryðjuverkasamtakanna á suðurhluta Ísraels 7. október, þar sem um 1.200 manns létu lífið og 251 voru teknir í gíslingu.

Fleiri en 40.000 manns hafa látið lífið í árásum Ísraels á Gasasvæðinu síðan þá, að sögn heilbrigðisyfirvalda á Gasa sem eru undir stjórn hryðjuverkasamtakanna Hamas. Eftir tíu mánuði af átökum og gríðarlegt mannfall hefur þrýstingur aukist á samningsaðila um að semja um vopnahlé.

Óttast margir að víðtækari svæðisbundin átök brjótist út ef viðræður milli Ísraels og Hamas fara algjörlega út um þúfur.

Minnka bilið

Vopnahléssamningur, sem gerður var í nóvember, fól í sér að Hamas sleppti 105 gíslum í skiptum fyrir vikulangt vopnahlé og frelsun um 240 palestínskra fanga í ísraelskum fangelsum. Ísraelar segja að 111 ísraelskir gíslar séu enn í haldi og eru 39 þeirra taldir látnir.

Hafa Ísraelar ítrekað sagt að aðalforsenda vopnahlés sé að öllum gíslum verði sleppt, en margir efast um að það sé aðalmarkmið Netanjahús sem hefur haldið því fram að „alger sigur“ gegn Hamas sé aðalmarkmið ríkisstjórnarinnar.

Bandaríkin, Katar og Egyptaland, sem hafa komið að samningaviðræðum, gáfu nýverið frá sér sameiginlega tilkynningu og kváðust hafa lagt fram tillögu um lausn gísla og vopnahlé, sem myndi minnka bilið á milli aðilanna tveggja til muna.

Ættingjar þeirra sem enn er haldið í gíslingu á Gasa hafa gert ítrekuð áköll um vopnahlé og segja það sína síðustu von um að fá ástvini sína heim á lífi.

Palestínumenn taka niður tjöld sín í Khan Yunis eftir að …
Palestínumenn taka niður tjöld sín í Khan Yunis eftir að Ísraelsher sendi út rýmingarskipun. AFP

Dregnir að samningaborðinu

Eru samningamenn Hamas sagðir hafa fallið frá kröfu sinni um varanlegt vopnahlé í þágu tillögu Biden um sex vikna vopnahlé þar sem hægt væri á meðan að komast að samkomulagi um varanleg stríðslok.

Vopnahléstillagan felur einnig í sér að Ísraelsher hverfi frá öllum íbúasvæðum á Gasa. Ísraelskum gíslum yrði sleppt úr haldi í skiptum fyrir palestínska fanga og líkamsleifum látinna gísla yrði sömuleiðis skilað.

Ríkir þó enn lítið sem ekkert traust á milli embættismanna Ísraels og embættismanna Hamas við samningaborðið, sem þeir hafa í raun verið dregnir að af utanaðkomandi hagsmunaaðilum sem óttast afleiðingar þess ef samningar nást ekki.

Telja útbreiddari átök veikja stöðu Ísrael

Hamas og bandamenn þeirra eru sannfærðir um að Bandaríkin séu einungis að reyna að kaupa sér meiri tíma með samningaviðræðunum og hafa ekki farið leynt með löngun sína til að Íran og Hisbollah ráðist á Ísrael.

Telur Hamas að útbreiddari átök á svæðinu myndu veikja stöðu Ísraels og þvinga Netanjahú til að samþykkja vopnahléstillögu.

Hefur Biden ítrekað sína afstöðu og sagt að enginn á svæðinu skuli grípa til eigin ráða og þar með grafa undan samningaferlinu.

Fjöldi Ísraelsmanna hafa gert ítrekuð áköll um vopnahlé til að …
Fjöldi Ísraelsmanna hafa gert ítrekuð áköll um vopnahlé til að fá gíslana heim. AFP

Vopnahlé besta bóluefnið

Hefur Ísraelsher á sama tíma haldið hernaði sínum áfram og gerði loftárás á íbúahverfi miðsvæðis á Gasa í gærmorgun sem varð 15 manns að bana, þar af níu konum og þremur börnum, samkvæmt talsmanni björgunarsveita á svæðinu.

Gaf herinn sömuleiðis út ný rýmingarfyrirmæli fyrir hverfi í norðurhluta Khan Younis og Deir Balah, sem þrengir hringinn enn frekar hvað varðar „örugg svæði“ þar sem óbreyttir borgarar geta leitað skjóls í átökunum.

Lömunarveiki hefur nú herjað á það svæði sem Ísraelsher hefur lýst yfir sem mannúðarsvæði á Gasa.

„Við skulum hafa eitt á hreinu: Besta bóluefnið gegn lömunarveiki er friður og tafarlaust vopnahlé“ sagði António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, um útbreiðslu faraldursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert