Bresks auðkýfings saknað við Sikiley

Breski auðkýfingurinn og hugbúnaðarfrumkvöðullinn Mike Lynch, sem kallaður hefur verið …
Breski auðkýfingurinn og hugbúnaðarfrumkvöðullinn Mike Lynch, sem kallaður hefur verið Bill Gates Bretlands, hvarf í hafið með lúxussnekkju skammt undan Palermo á Sikiley við rismál í morgun er aftakaveður gerði á Miðjarðarhafi. AFP

Breska kaupsýslumannsins og hátæknifrumkvöðulsins Mike Lynch, sem stundum hefur nefndur Bill Gates Bretlands, er saknað eftir að munaðarsnekkjan The Bayesian, 56 metra lúxusfley, sökk  í aftakaveðri er skyndilega gerði við sunnanverða Ítalíu skömmu fyrir dagrenningu í morgun.

Síðast var, að sögn ítalskra almannavarna, vitað um ferðir snekkjunnar eftir að áhöfnin hafði varpað akkerum austur af sikileysku höfuðborginni Palermo. Skömmu síðar gerði gjörningaveður sem olli nokkru tjóni í strandbæjum á Sikiley auk þess að sökkva snekkjunni þar sem hún lá við akkeri.

Tókst björgunarteymi að heimta fimmtán manns af skútunni úr helju, þar á meðal eiginkonu auðkýfingsins breska, en sex manns hafa ekki fundist þrátt fyrir að björgunarfólk hafi fínkembt hafsvæðið, hefur AFP-fréttastofan eftir Salvo Cocina, talsmanni almannavarna. Hafa ítölsk stjórnvöld þegar hafið rannsókn á skipsskaðanum.

Borinn þungum sökum vestanhafs

Hugbúnaðarfyrirtækið Autonomy, sem Lynch stofnaði í breska háskólabænum Cambridge árið 1996, var nýlega í fréttum í kjölfar þess er bandaríski tæknirisinn Hewlett-Packard festi á því kaup, að því er bandarísk yfirvöld töldu með ólögmætum hætti og var Lynch brigslað um stórfelld netsvik (e. wire fraud), hlutabréfasvindl auk samsæris um fleiri auðgunarbrot með því að hafa um árabil falsað bókhaldsgögn fyrirtækis síns.

Var Lynch framseldur til Bandaríkjanna að kröfu þarlendra ákærenda og gert að standa reikningsskil meintra gjörða sinna fyrir dómstól í San Francisco þar sem hann kvaðst sýkn saka í öllum ákæruatriðum og féllst dómari á sýknukröfu Bretans.

Í kjölfar dómsuppkvaðningarinnar gagnrýndi Lynch málatilbúnað ákæruvaldsins vestra og lét þau orð falla í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC að hann væri eingöngu frjáls maður vegna þess að hann hefði haft næg fjárráð til að bera ekki skarðan hlut frá borði í ferli sem til þess væri gert að hafa menn undir (e. „not to be swept away by a process that's set up to sweep you away“).

Klykkti hugbúnaðarfrumkvöðullinn út með því að sem breskur ríkisborgari ætti enginn að þarfnast digurra sjóða til að krefjast réttar síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka