Ein ráðgáta leyst en aðrar birtast

Altarissteinninn í Stonehenge sést á myndinni við hlið tveggja stærri …
Altarissteinninn í Stonehenge sést á myndinni við hlið tveggja stærri steina. Steinninn er talinn vera frá norðurhluta Skotlands. AFP

Steinn í miðju Stonehenge-minnismerkisins á suðvesturhluta Englands kom upphaflega frá norðvesturhluta Skotlands, í um 750 kílómetra fjarlægð. Vísindamenn segja að þessi niðurstaða hafi leyst eina ráðgátu sem tengist Stonehenge en um leið vakni spurningar um hvernig forsögulegir byggingarmeistarar fóru að því að flytja steininn svona langa leið.

Stonehenge, sem er talið hafa verið reist á nýsteinöld fyrir um 5 þúsund árum, er dularfullt mannvirki sem hefur orðið uppspretta sagna um aldir. Þannig var á miðöldum talið að galdrakarlinn Merlin úr sögunni um Artúr konung hefði stolið minnismerkinu frá Írlandi.

En nú þykir ljóst að sandsteinsstólparnir, sem standa uppréttir í steinhringnum, eigi uppruna sinn í Marlborough í nokkurra tuga kílómetra fjarlægð og blágrýtissteinarnir í innri hringnum séu frá Wales.

En uppruni svonefnds altarissteins, sex tonna steins sem liggur á hliðinni í miðju minnismerkisins, hefur til þessa vafist fyrir mönnum. Lengi vel var talið að hann væri einnig ættaður frá Wales en rannsóknir hafa til þessa ekki getað fært sönnur á það.

Hópur breskra og ástralskra vísindamanna ákvað því að færa út leitarsvæðið, ef svo má segja og niðurstaðan var óvænt, að sögn Richard Bevins, prófessors í Aberystwyth-háskóla í Wales en hann er einn höfunda greinar um rannsóknina, sem birtist í síðustu viku í tímaritinu Nature.

Með efnafræðirannsóknum var leitt í ljós, að steinninn væri úr svonefndri Orkneyjadæld í að minnsta kosti 750 kílómetra fjarlægð frá Stonehenge.

Stonehenge hefur yfir sér dularfullan blæ og margir hafa reynt …
Stonehenge hefur yfir sér dularfullan blæ og margir hafa reynt að ráða gátuna um hvernig steinarnir voru fluttir á svæðið. AFP

Óvænt niðurstaða

Vísindamennirnir voru gáttaðir. „Þetta er afar óvænt niðurstaða,“ skrifaði annar greinarhöfundur, Robert Ixer hjá University College London, í tilkynningu. Sá þriðji, Nick Pearse hjá Aberystwyth-háskóla, segir við AFP-fréttastofuna, að þetta sé lengsta leið, sem vitað er til að steinn hafi verið fluttur á þessum tíma.

Fornleifafræðingar og sagnfræðingar hafa lengi velt því fyrir sér hvernig fólk, sem var uppi um 2.500 árum fyrir Krist, hafi farið að því að flytja stóra steina frá Wales. En greinarhöfundarnir segja, að samfélag sem gat flutt altarissteininn, sem er fimm metra langur og metri að breidd, frá Skotlandi hafi verið afar vel skipulagt og tengt. Þeir hvetja til að frekari rannsóknir verði gerðar til að finna nákvæmlega staðinn í Skotlandi þar sem steinninn er upprunninn.

Ein kenning er að steinninn kunni að hafa borist til Suður-Englands með skriðjöklum. En Antony Clarke hjá Curtin-háskóla í Ástralíu, og aðalhöfundur greinarinnar í Nature, sagði á blaðamannafundi að rannsóknir bendi til þess að ís hefði frekar borið steininn með sér í norður í átt frá Stonehenge.

Önnur kenning er að þeir sem reistu Stonehenge hafi flutt steinana á landi. Það hefði hins vegar verið afar erfið ferð gegnum þéttan skóg, mýrlendi og yfir fjallgarða, að sögn Clarkes.

Enn einn möguleiki er að steinninn hafi verið fluttur sjóleiðis. Clarke sagði að vísbendingar væru um að til hefði verið þéttriðið siglinganet á nýsteinöld þar sem leirmunir og skartgripir voru fluttir milli svæða.

Leysigeislar

Til að ráða gátuna um uppruna altarissteinsins skutu vísindamennirnir leysigeislum inn í kristalla í þunnri flís úr steininum. Hlutfall úraníums og blýs í þessum kristöllum er eins konar tímamæling steina þar sem hægt er að reikna út aldur þeirra.

Vísindamennirnir báru aldur steinsins síðan saman við aðra steina víðs vegar á Bretlandseyjum og niðurstaðan var, að hægt sé að fullyrða að steinninn sé frá Orkneyjadældinni.

Susan Greaney, fornleifafræðingur hjá Exeter-háskóla á Englandi, sem tengist ekki rannsókninni, segir við AFP að þessi rannsókn sýni í fyrsta skipti fram á bein tengsl milli suðurhluta Englands og norðurhluta Skotlands á þessum tíma.

„Að setja þennan stein í miðju minnismerkisins, á sólstöðuöxulinn, sýnir að þeir töldu að þessi steinn, og tengslin við svæðið í norðri, væru gríðarlega mikilvæg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert