Fann sjaldgæfan silfurfjársjóð frá víkingaöld

Gustav Bruunsgaard er 22 ára fornleifafræðinemi við Árósaháskóla.
Gustav Bruunsgaard er 22 ára fornleifafræðinemi við Árósaháskóla. Ljósmynd/Moesgaard-safnið

Fornleifafræðinemi við Árósaháskóla fann sjaldgæfan silfurfjársjóð frá níundu öld sem tengir Danmörku á víkingaöld við Rússland, Úkraínu og Bretlandseyjar.

Greint var frá þessu í dag á vef Moesgaard-safnsins í Árósum.

Fundurinn þykir undirstrika stöðu Árósa sem alþjóðlegan miðpunkt á víkingaöld.

Yfir tólf hundruð ára fornleifar

Hinn 22 ára gamli Gustav Bruunsgaard fann silfrið er hann gekk með málmleitartæki um tún við bæinn Elsted í Árósum þar sem áður hafa fundist ummerki um landnám á víkingaöld.

Eftir að tækið pípti gróf hann niður á silfurarmband. Nokkrum dögum síðar fór hann aftur á staðinn og fann þar sex armbönd til viðbótar í haug.

Silfurhaugurinn var síðan metinn af bæði dönskum og erlendum sérfræðingum sem komust að þeirri niðurstöðu að hann hringirnir væru frá því snemma á víkingaöld í kringum árið 800.

Silfurhringarnir sjö sem fundust í Elsted.
Silfurhringarnir sjö sem fundust í Elsted. Ljósmynd/Moesgaard-safnið

Sjaldgæfir hringar

Einn hringurinn er af gerð sem upprunalega kom frá Rússlandi eða Úkraínu og var síðan líkt eftir á Norðurlöndum.

Þrír hringir eru af suður-skandinavískri gerð sem varð síðan innblástur fyrir armbönd á Írlandi og urðu þau mjög algeng þar.

Hinir hringanna eru sjaldgæfir en þó þekktir í skandinavíu og á Englandi.

„Þetta er ótrúlega áhugaverð uppgötvun frá víkingaöld, sem tengir Árósar við Rússland og Úkraínu í austri og Bretlandseyjar í vestri. Þannig undirstrikar fundurinn hvernig Árósar voru miðpunktur á víkingaöld, frá Norður-Atlantshafi til Asíu,“ segir Kasper H. Andersen, doktor í sagnfræði við Moesgaard-safnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert