Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er kominn til Ísraels þar sem hann mun funda með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels.
Blinken segir að friðarviðræðurnar séu hugsanlega síðasta tækifærið til að koma á friði.
„Þetta er afgerandi augnablik, líklega besta og hugsanlega síðasta tækifærið til að fá gíslana heim, til að ná vopnahléi og koma öllum á betri veg í átt að friði og öryggi,“ sagði Blinken við fréttamenn en hann er á sinni níundu heimsókn til Mið-Austurlanda frá því stríð braust út milli Ísraela og Hamas.
Netanjahú hefur sakað Hamas-samtökin um að standa í vegi fyrir að samningar náist um vopnahlé en hlé var gert á friðarviðræðum í Doha í Katar á föstudaginn. Reiknað er með að þær hefjist aftur í vikunni.
„Við erum að vinna að því að tryggja að það verði engin stigmögnun, að það séu engar ögranir og það séu engar aðgerðir sem á nokkurn hátt geta fært okkur í burtu frá því að koma þessum samningi yfir strikið,“ sagði Blinken ennfremur.