Móðir „kúrdíska refsins“ handtekin

Rawa Majid er íraskur fjölskyldufaðir sem ólst upp í Svíþjóð, …
Rawa Majid er íraskur fjölskyldufaðir sem ólst upp í Svíþjóð, rak ísbúð í Uppsala og átti í góðu samstarfi við foreldra sína. Það samstarf fólst í því að foreldrarnir földu stórfé á heimili sínu og ísbúðin snerist minnst um ís. „Kúrdíski refurinn“ stjórnar sænska glæpagenginu Foxtrot frá Tyrklandi og verður ekki framseldur, hann er kominn með tyrkneskan ríkisborgararétt. Móðir hans hefur nú verið handtekin í Írak. Ljósmynd/Sænska lögreglan

Pari Saleh, sextug móðir „kúrdíska refsins“, hins íraska Rawa Majid, hefur verið handtekin í Írak en sænsk yfirvöld hafa lýst eftir henni alþjóðlega þar sem hennar er vænst í afplánun í Svíþjóð.

Skandinavískir fjölmiðlar, auk mbl.is, hafa síðasta árið gert ítarlega grein fyrir Majid, höfuðpaur glæpagengisins Foxtrot sem fer með oddi og egg um sænska undirheima og treður illsakir við aðrar klíkur með skotárásum og sprengjutilræðum sem ítrekað hafa orðið fréttaefni í Svíþjóð.

Situr refurinn í öruggu skjóli í Tyrklandi og fjarstýrir gengi sínu þaðan, eins og mbl.is fjallaði ítarlega um í fyrrahaust, en hann er tyrkneskur ríkisborgari og fæst því ekki framseldur til Svíþjóðar.

Foreldrar Majids gerðust snemma vitorðsmenn hans í umfangsmikilli fíkniefnasölu í Uppsala þar sem barnungur sonur fátækra flóttamanna frá Írak og hálfgerður tossi í framhaldsskóla, sem ekki hafði sérstaklega skorið sig úr hópi samnemenda sinna fram til þessa, tók skyndilega að mæta í skólann vafinn gullkeðjum og skrýddur merkjafatnaði hinum dýrasta.

Láta ekkert uppi

Kvisaðist það brátt út að Majid verslaði með þýfi og smygl og ekki leið á löngu uns fíkniefni bættust á vörulistann og skaut Írakinn ungi keppinautum sínum í Uppsala ref fyrir rass með því að semja við birgja sína um lægra verð gegn því að kaupa meira magn í einu. Bauð hann viðskiptamönnum sínum þar með lægra verð í smásölu og áður en langt um leið var „kúrdíski refurinn“ á allra vörum í Uppsala. Fáir urðu til að skáka veldi hans og brátt barst hróður hans til höfuðborgarinnar Stokkhólms.

Írösk lögregluyfirvöld vilja að sögn sænska dagblaðsins Aftonbladet ekkert láta uppi um handtöku móður refsins en það hefur blaðið eftir Irene Sokolow, upplýsingafulltrúa sænsku lögreglunnar.

Haustið 2022 hlaut móðirin eins og hálfs árs dóm í Svíþjóð fyrir stórfelldan peningaþvott með því að hafa hvítþvegið eina og hálfa milljón sænskra króna af fíkniefnatekjum sonarins, jafnvirði 20 milljóna íslenskra króna, gegnum ísbúð sem Majid átti í Uppsala. Við húsleit á heimili foreldra hans fundust mörg hundruð þúsund sænskar krónur í reiðufé sem faldar höfðu verið í samanbrotnum sokkapörum.

Óttaðist afplánun

Hefur Saleh verið treg til að hefja aplánun dómsins sem hún hlaut og átti að hefjast í Ljustadalen-fangelsinu í Sundsvall í ágúst í fyrra. Þangað mætti hún aldrei en yfirgaf Svíþjóð þess í stað. Kvaðst hún óttast afplánun í fangelsi fyrir forherta afbrotamenn þar sem hún væri orðin þekkt í undirheimunum sem móðir kúrdíska refsins sem margir vildu koma höggi á. Sótti hún því um að fá að taka refsingu sína út í opnu lágmarksöryggisfangelsi þar sem hún ætti síður von á að veist yrði að henni með ofbeldi.

Ræddi Aftonbladet við lögmanninn sem annaðist málsvörn Saleh og var honum að eigin sögn ekki kunnugt um að skjólstæðingur hans fyrrverandi væri í höndum íraskra yfirvalda. Henrik Söderman, sem sótti málið fyrir hönd ákæruvaldsins, kvaðst ekki heldur geta veitt nokkrar upplýsingar um sakborninginn fyrrverandi þar sem hann tengdist málum Saleh ekki á nokkurn hátt eftir dómsuppkvaðningu.

Aftonbladet

SVT

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert