Santos játaði sekt sína

George Santos, fyrrum þingmaður repúblikana, er ekki allur þar sem …
George Santos, fyrrum þingmaður repúblikana, er ekki allur þar sem hann er séður. Mandel NGAN / AFP

George Santos, fyrrverandi þingmaður repúblikana, játaði í kvöld að hann væri sekur um fjársvik og auðkennisþjófnað. Hann var rekinn úr fulltrúadeild þingsins eftir að hafa verið ákærður fyrir að fjármagna íburðamikinn lífsstíl með stolnu gjafafé.

Fall hins 36 ára gamla repúblikana átti sér stað eftir að í ljós kom að hann hefði skáldað nær alla forsögu sína og hlaut einnig fjölda ákæra fyrir stuld á gjafafé frá styrktaraðilum, kreditkortasvik, peningaþvætti og auðkennisþjófnað.

Notaði styrktarfé á Onlyfans

Meðal þess sem hann skáldaði um forsögu sína var til að mynda að hann hefði unnið fyrir Goldman Sachs, að hann væri gyðingur og hefði verið blakstjarna í menntaskóla.

Santos komst inn í fulltrúadeild repúblikana árið 2022 og átti þátt í að flokkurinn náði örlitlum meirihluta. Fljótlega hallaði undan fæti þegar upp komst að hann var ekki sá sem hann sagðist vera.

Santos, sem áður neitaði öllum kærum á hendur sér, er sagður hafa notað styrktarfé m.a. til bótox meðferða og inni á Onlyfans síðunni, í ítalska gæðavöru og til ferðalaga.

Í maí 2023 voru ákæruliðirnir alls 13, en í október sama ár bættust tíu við. Í febrúar völdu kjósendur demókratann Tom Suozzi í hans stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert