Hæstiréttur Indlands gefur út tilskipun í kjölfar morðs á ungum læknanema

Heilbrigðisstarfsmaður hugar að sjúklingi á gjörgæslu sjúkrahússins í Kolkata á …
Heilbrigðisstarfsmaður hugar að sjúklingi á gjörgæslu sjúkrahússins í Kolkata á sama tíma og aðrir heilbrigðisstarfsmenn taka þátt í hörðum mótmælum á Indlandi. DIBYANGSHU SARKAR / AFP

Hæstiréttur Indlands skipaði í dag starfshóp sem ber að skoða hvernig auka eigi öryggi heilbrigðisstarfsmanna þar í landi. Mikil mótmæli hafa staðið yfir um gervalt landið í kjölfar hrottalegrar nauðgunar og morðs á kvenkyns læknanema í Kolkata þann 9. ágúst.

Ofbeldisglæpurinn hefur komið af stað mótmælaöldu á Indlandi og ýtt undir landlæga reiði yfir langvarandi ofbeldi gegn konum.

Í kjölfarið hafa læknafélög innan ríkisrekinna spítala í ótal borgum víðsvegar um landið farið í verkföll. Mótmælin hafa flest verið leidd af læknum og öðru heilbrigðisstarfsfólki ásamt þúsundum annarra almennra borgara.

Skortir á öryggi heilbrigðisstarfsmanna

Mótmælendur héldu á skiltum til að krefjast réttlætis á meðan hæstiréttur gaf út tilskipunina í höfuðborginni Nýju Deli í dag.

Í tilksipuninni segir m.a.: „Skortur á öryggisviðmiðum inni á sjúkrastofnunum er varða kynferðislegt og annað ofbeldi gegn heilbrigðisstarfsfólki er verulegt áhyggjuefni... Með lélegt eða ekkert verndarkerfi til að tryggja öryggi þeirra eru heilbrigðisstarfsmenn berskjaldaðir fyrir ofbeldi.“

Þann 9. ágúst fannst læknaneminn látinn eftir að hafa lagt sig í einum af fyrirlestrarsölum spítalans eftir 36 klukkustunda vakt. Krufning leiddi í ljós að henni hafi verið nauðgað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert