„Lagði mig allan fram“

Biden og Harris féllust í faðm að ræðu Bidens lokinni.
Biden og Harris féllust í faðm að ræðu Bidens lokinni. AFP/Robyn Beck

Joe Biden Bandaríkjaforseti ávarpaði landsfund Demókrataflokksins í nótt. Í ræðu sinni fagnaði Biden framboði Kamölu Harris, varaforseta Bandaríkjanna, og sagðist ekki vera gramur út í þá sem hvöttu hann til að stíga til hliðar.

Mikilvægast væri að sigra Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblíkana, í komandi kosningum sagði hann enn fremur. 

„Bandaríkin, Bandaríkin, Ég lagði mig allan fram fyrir ykkur,“ sagði hann. 

Mikilvægast að brúa bilið

Um þriggja mínútna standandi lófatak mætti Biden þegar hann steig fram á svið og hélt tæplega klukkutíma langa ræðu. 

Hann fór yfir helstu afrek sín í forsetastólnum í ræðunni og nefndi í því samhengi efnahaginn, heilbrigðisþjónustuna og sagði að mikilvægast hefði verið að brúa bilið á milli Bandaríkjamanna eftir óeirðirnar 6. janúar 2021, þegar stuðningsmenn Trumps gerðu atlögu að þinghúsi Bandaríkjanna. 

Biden sagðist ekki reiður út í þá sem hvöttu hann til að stíga til hliðar og sagði: „Ég elska starfið, en ég elska landið meira. Ég elska landið mitt meira.“

Hann hvatti stuðningsmenn sína til þess að styðja við framboð Harris og sagði Trump vera aumingja og sakfelldan glæpamann. 

Biden og Harris féllust í faðm að ræðu lokinni. Harris hafði í ræðu sinni stuttu áður fagnað forsetatíð Bidens og sagði við Biden: „Við erum þér í eilífri þakkarskuld.“

Mótmæli skyggðu á fundinn

Mótmæli gegn stríðinu á Gasa skyggðu á flokksfundinn. Álitsgjafar erlendis telja að afstaða demókrata til stríðsins og almennur stuðningur flokksins við Ísrael komi til með að fækka atkvæðum til flokksins frá ákveðnum hópi vinstrimanna og Bandaríkjamönnum af arabískum uppruna. 

Mótmælendur gegn stríðinu brutust í gegnum ytri öryggisgirðingar og lögreglumenn skárust í leikinn.

Biden sagði í ræðu sinni að mótmælendurnir hefðu eitthvað til málsins að leggja: „Það er verið að drepa marga saklausa borgara. Á báðum hliðum stríðsins,“ sagði hann og bætti við að tími væri til kominn að binda enda á stríðið. 

Mótmæli gegn stríðinu á Gasa skyggðu á landsfundinn.
Mótmæli gegn stríðinu á Gasa skyggðu á landsfundinn. AFP/Matthew Hatcher
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert