„MPX er ekki nýja Covid“

Hans Kluge.
Hans Kluge. AFP

Útbreiðsla MPX-veirusjúkdómsins, sem áður kallaðist apabóla, er ekki Covid-19 endurtekið að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Stofnunin segir að þegar sé til mikil þekking um veirusjúkdóminn og aðferðir til að takast á við hann.

Hans Kluge, yfirmaður Evrópudeildar WHO, segir að þrátt fyrir að þörf sé á frekari rannsóknum á 1b-afbrigði sjúkdómsins, sem leiddi til þess að WHO lýsti því yfir að afbrigðið væri bráð ógn við lýðheilsu þjóða heims, þá sé hægt að draga úr útbreiðslunni. 

Í júlí árið 2022 lýsti WHO því yfir að 2b-afbrigði MPX-veirunnar væri bráð ógn við lýðheilsu þjóða, en það afbrigði var talsvert hættuminna en nýjasta afbrigðið og hafði aðallega áhrif á samkynhneigða eða tvíkynhneigða karlmenn. Hættunni var síðan aflétt í maí í fyrra. 

„MPX er ekki nýja Covid,“ fullyrðir Kluge. 

„Við vitum hvernig við eigum að takast á við MPX. Og, innan Evrópu, þekkjum við þau skref sem þarf að stíga til að uppræta útbreiðsluna alfarið,“ sagði Kluge við blaðamenn í Genf í dag. 

Hvað er MPX veira (e. Mpox)?

„MPX veirusjúkdómur (áður apabóla) er landlægur í Mið- og Vestur Afríku þar sem veiran smitast helst frá dýrum (nagdýrum) í fólk. Veiran greindist fyrst í öpum árið 1958 og fékk þannig fyrst nafn sitt (monkeypox), en fyrsta tilfelli í fólki greindist árið 1970. Veiran er orthopox veira og er náskyld bólusóttarveiru (smallpox). Sjúkdómurinn hefur hingað til verið sjaldgæfur utan Afríku.

Árið 2022 greindust hins vegar tilfelli MPX veirusjúkdómi í mörgum öðrum löndum, innan og utan Evrópu, þar með talið á Íslandi. Tilfelli eru að greinast áfram víða um heim. Dreifing þessara smita er manna á milli, sem er óvenjulegra en ekki óþekkt. Allir geta smitast en sérstaklega hefur borið á smitum milli karla sem stunda kynlíf með körlum,“ segir á vef Embættis landlæknis. 

Nánari upplýsingar hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert