Sætta sig ekki við langvarandi hernám Ísraels

Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. AFP/Chip Somodevilla

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna Antony Blinken segir að engann tíma megi missa þegar kemur að því að ná samningum um vopnahlé á Gasa.

Blinken lauk í dag ferðalagi sínu um Mið-Austurlönd en á blaðamannafundi í Katar áður en hann flaug aftur til Bandaríkjanna sagði Blinken að tíminn væri að skornum skammti í vopnahléssamningaviðræðum Ísraels og Hamas-samtakanna.

„Þetta þarf að klárast og það þarf að gerast á næstu dögum. Við munum gera allt sem við getum til sigla þessu í höfn,“ sagði Blinken.

Sætta sig ekki við langvarandi hernám

Í gær sagði Blinken, sem þá var staddur í Ísrael, að stjórnvöld þar í landi hefðu samþykkt tillögu Bandaríkjanna til að brúa bilið á milli fylkinganna tveggja og hvatti Hamas til að gera slíkt hið sama.

Fjölmiðlar hafa hins vegar haft eftir Benja­mín Net­anja­hú, forsætisráðherra Ísraels, að ríkisstjórn hans muni krefjast þess að halda stjórn yfir landsvæði við landamæri Gasa og Egyptalands.

Spurður út í þau ummæli Net­anja­hús sagði Blinken að frá því að átökin á Gasa hófust hafi það verið „mjög skýrt að Bandaríkin sætta sig ekki við langvarandi hernám Ísraels á Gasa“.

Þá sagði hann að í vopnahlésviðræðunum upp á síðkastið hafi verið gerðar mjög skýrar áætlanir um brotthvarf Ísraelshers frá Gasa og að Ísrael hafi samþykkt þær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert