Sló lögreglukonu ítrekað

Bærinn Hamar er í Innlandet-fylki en tilheyrði Hedmark fyrir sameiningu …
Bærinn Hamar er í Innlandet-fylki en tilheyrði Hedmark fyrir sameiningu fylkjanna Hedmark og Oppland í ársbyrjun 2020. Ljósmynd/Wikipedia.org/John Christian Fjellestad

Sautján ára gamall piltur hlaut í morgun sextán mánaða refsidóm fyrir ólögráða brotamenn fyrir Héraðsdómi Østre Innlandet í Hamar í Noregi fyrir ofbeldi í garð lögreglukonu þar í bænum í apríl. Úrskurðaði dómari enn fremur að sjö mánaða fangelsisrefsing kæmi í stað dæmdrar samfélagsþjónustu sinnti dæmdi henni ekki sem skyldi.

Lögreglukonan sem misgert var við hafði afskipti af pilti í vor ásamt öðrum lögregluþjóni er hún handtók dæmda við annan mann vegna gruns um fíkniefnasölu. Hafði hann þá í fórum sínum neftóbaksdós og sígarettupakka sem innihéldu kannabisefni og kókaín.

Við handtökuna gerði annar handteknu tilraun til að forða sér á hlaupum og veitti hinn lögregluþjónninn honum eftirför en á meðan stóð lögreglukonan eftir með þann sem nú hlaut dóm.

Neytti allra bragða

Til átaka kom á milli þeirra og hafði piltur lögreglukonuna undir, settist ofan á hana og sló hana ítrekað í andlit, höfuð og handlegg áður en hann reif sig lausan úr taki hennar og hugðist koma sér undan þegar íbúi í nágrenninu kom aðvífandi og skellti honum í götuna.

Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa neytt allra bragða til að komast undan handtökunni en lögreglukonan hlaut heilahristing, bólgur á höfði og marbletti víða um líkamann eftir atlögu hans. Er hún enn í veikindaleyfi að hluta og óvíst um hvenær, jafnvel hvort, hún snýr til baka í fullt starf.

Auk dómsins var ákærða gert að greiða konunni 30.000 norskar krónur í þjáningabætur og 60.000 fyrir tekjutap, samtals nema þessar upphæðir tæplega 1,2 milljónum íslenskra króna.

NRK

Hamar Arbeiderblad (læst áskriftargrein)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert