Paul Watson, sem situr í gæsluvarðhaldi í Grænlandi, hefur óskað eftir að skjóta varðhaldsúrskurðinum til hæstaréttar Danmerkur.
Ritzau-fréttastofan hefur þetta eftir Julie Stage, einum lögmanna Watsons.
Watson var handtekinn í Nuuk í júlí og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. ágúst. Héraðsdómur framlengdi varðhaldið í síðustu viku til 5. september að kröfu lögreglu og grænlenski landsrétturinn staðfesti þann úrskurð í dag.
Watson var handtekinn á grundvelli alþjóðlegrar handtökuskipunar, sem alþjóðalögreglan Interpol gaf út að beiðni japanskra stjórnvalda árið 2012 vegna aðgerða, sem Watson stóð fyrir gegn japönskum hvalveiðiskipum í Suðurhöfum árið 2010.
Japanar hafa sent danska dómsmálaráðuneytinu formlega kröfu um að Watson verði framseldur til Japans. Ekki hefur verið tekin afstaða til þeirrar kröfu.
Handtaka Watsons hefur vakið alþjóðlega athygli. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagðist í lok júlí hafa haft samband við dönsk stjórnvöld og lýst þeirri skoðun að ekki eigi að framselja Watson, sem hefur búið í Frakklandi síðustu ár.
Þá sendu 73 nafngreindir stjórnmálamenn frá tíu löndum bréf til Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, þar sem hvatt var til þess að Watson yrði látinn laus.
Í síðustu viku var mótmælafundur haldinn utan við Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn. Meðal þátttakenda var Joseph Duplantier úr frönsku hljómsveitinni Gojira sem lék á opnunarhátíð Ólympíuleikanna í París í sumar.