Boeing frestar flugprófunum á 777X-breiðþotu

Stefnt er að því að taka vélina í almenna notkun …
Stefnt er að því að taka vélina í almenna notkun á næsta ári. AFP/Jennifer Buchanan

Boeing hefur frestað flugprófunum á nýju 777X-breiðþotunni eftir að bilun í hlut sem tengir hreyflana við flugvélina kom í ljós.

„í skipulögðu viðhaldi greindum við hlut sem ekki virkaði eins og hann var hannaður,“ sagði í yfirlýsingu Boeing við AFP-fréttastofuna.

Boeing segir að verið sé að skipta um hlutinn og reynt verði að skilja hvað fór úrskeiðis. Þegar búið verður að laga vandamálið hefjist flugprófanir á nýjan leik.

Flug­véla­fram­leiðand­inn hef­ur ít­rekað ratað í heim­spress­una að und­an­förnu vegna áhyggna um gæðaeftirlit og bil­ana á vél­um þeirra.

Áttu upphaflega að vera teknar í notkun 2020

Boeing 777X-breiðþoturnar voru kynntar í nóvember 2013 og eru nýjasta viðbótin við hinar vinsælu 777-flugvélar sem Boeing framleiðir.

777X-breiðþotan verður stærsta tveggja hreyfla flugvélin í notkun í heiminum. Yfir 500 breiðþotur af þessari gerð hafa þegar verið pantaðar en eru ekki komnar í almenna notkun.

Upphaflega áttu breiðþoturnar að vera teknar í notkun árið 2020 en því hefur verið frestað til ársins 2025 vegna vandamála við leyfisveitingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert