Fundu fimm lík af sex í flakinu

Kafarar frá ítalska slökkviliðinu koma í höfn nálægt Palermo í …
Kafarar frá ítalska slökkviliðinu koma í höfn nálægt Palermo í dag með þriðja líkið. Alberto PIZZOLI / AFP

Kafarar fundu fyrr í dag fimm lík af þeim sex, sem leitað var í snekkjunni sem sökk undan ströndum Sikileyjar á mánudaginn. Fjögur líkanna hafa verið flutt til hafnar, en leit að sjötta líkinu var hætt vegna myrkurs um kvöldmatarleitið að íslenskum tíma.

Slökkviliðsmenn sem tóku þátt í leitinni sögðu að aðgerðin væri afar „löng og flókin“.

Kennsl hafa ekki enn verið borin á líkin sem flutt hafa verið á land. Einn þeirra sem fórst í slysinu var breski tæknijöfurinn Mike Lynch.

Snekkjan fórst í stormi við Sikiley snemma á mánudagsmorgun og er hún sögð hafa sokkið innan örfárra mínúta. Tala látinna er nú komin í sjö, en einn þeirra er enn ófundinn.

Fimmtán manns var bjargað, þar á meðal eiginkona Lynch. En Lynch og dóttir hans, lögfræðingur hans Christopher Morvillo og eingkona hans, og Jonathan Bloomer, stjórnarformaður Morgan Stanley og eingkona hans Judy, voru öll meðal þeirra sem saknað var.

Fögnuðurinn breyttist í martröð

Hinn 59 ára gamli Lynch, breskur frumkvöðull sem stundum hefur verið kallaður Bill Gates Bretlands, bauð gestunum um borð í snekkjuna til að fagna sýknu í umfangsmiklu sakamáli.

Hann var sýknaður í öllum ákæruliðum fyrir dómstóli í San Francisco í júní eftir að hafa verið ákærður fyrir 11 milljarða dollara fjársvik í tengslum við sölu hugbúnaðarfyrirtækis hans Autonomy til Hewlett-Packard.

Meðal þeirra sem lifðu af slysið var Charlotte Golunski, stjórnarmaður í fyrirtæki Lynch. Golunski hefur lýst því hvernig hún missti tökin á eins árs gamalli dóttur sinni í stutta stund áður en hún náði til hennar aftur.

Þeir sem lifðu af slysið hafa nú verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.

Undarleg atburðarás

Ótrúlegt þykir á hve miklum hraða snekkjan sökk samanborið við aðra báta sem í kringum hana voru og urðu ekki einu sinni fyrir áhrifum af storminum. En ótalmörgum spurningum er enn ósvarað.

Ítölsk yfirvöld hafa hafið rannsókn á því sem gerðist og yfirheyra eftirlifendur slyssins. Rannsóknardeild sjóslysa frá Bretlandi hefur einnig sent starfslið til Ítalíu.

Breski veðurfræðingurinn Peter Inness hefur lýst hringiðunni sem myndaðist í sjónum við storminn sem einskonar „súlu af snúningslofti“ undir þrumuveðri sem á sér stað yfir vatni. Eins og við hvirfilbyl myndast súla þar sem loft sogast upp í snúning. Oft getur vindhraðinn farið yfir 100 kílómetra á klukkustund. Slíkur kraftur getur skapað algjörlega stjórnlausar aðstæður og getur steypt bátum- í þessu tilfelli snekkjunni - á hvolf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert