Michelle um Trump: „Hver ætlar að segja honum“

Hjónin vöktu mikla lukku meðal demókrata.
Hjónin vöktu mikla lukku meðal demókrata. AFP/Mandel Ngan

Hjónin Barack og Michelle Obama ávörpuðu landsfund demókrata í gær og ítrekuðu stuðning sinn við Kamölu Harris, forsetaframbjóðanda demókrata. Þá skutu þau föstum skotum að Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana.

„Við þurfum ekki fjögur ár í viðbót af óreiðu, uppþoti og glundroða. Við höfum séð þessa kvikmynd áður og við vitum öll að framhaldsmyndin er yfirleitt verri,“ sagði Barack Obama um Donald Trump.

Í ræðu sinni lofaði Barack Obama ákvörðun Bidens um að hætta við framboð og sagði forsetann hafa lagt sinn eigin metnað til hliðar í þágu þjóðarinnar. Michelle Obama minntist ekki á Joe Biden í sinni ræðu.

Kosningabaráttan muni taka á sig ljóta mynd

Áður en Barack tók til máls sagði Michelle Obama að kosningarnar byðu þjóðinni „möguleika á að sigrast á djöflum óttans, sundrungar og haturs sem hafa heltekið okkur.“

Hún gagnrýndi Trump og spáði því að kosningabaráttan myndi taka á sig ljóta mynd hvað orðræðu um kynþætti varðar.

„Donald Trump gerði allt sem í hans valdi stóð til að reyna að fá fólk til að óttast okkur,“ sagði hún og vísaði þar til þess að Trump hefði ranglega haldið því fram að Barack Obama væri ekki fæddur í Bandaríkjunum.

Landsfundurinn er haldinn í Chicago-borg og stendur yfir fram á …
Landsfundurinn er haldinn í Chicago-borg og stendur yfir fram á fimmtudag. AFP/Mike Segar

Bandaríkjamenn tilbúnir í nýjan kafla

Donald Trump hefur nokkrum sinnum í baráttunni talað um að svokölluð „svört störf“ (e. Black jobs) séu í hættu vegna ólöglegra innflytjenda. Er hann að reyna höfða til svartra með þessum boðskap. Michelle Obama svaraði þessum málflutningi.

„Hver ætlar að segja honum að starfið sem hann sækist núna eftir gæti vel verið eitt af þessum svörtu störfum?“ sagði hún og hlaut mikið lof fyrir frá landsfundargestum.

Barack sagði að Bandaríkjamenn væru tilbúnir í nýjan kafla undir forystu Kamöla Harris.

Wall Street Journal

NPR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert