Noregur skerðir olíuvinnslu um 238 billjónir króna

Vinnslupallurinn Statfjord A á norska Statfjord-olíuvinnslusvæðinu í Norðursjó, hluti svæðisins …
Vinnslupallurinn Statfjord A á norska Statfjord-olíuvinnslusvæðinu í Norðursjó, hluti svæðisins tilheyrir þó Bretum. Norðmenn hyggjast helminga olíuframleiðslu sína fram til 2050 og nemur skerðingin um 238 billjónum íslenskra króna. Ljósmynd/Wikipedia.org/Jarvin Jarle Vines

Draga mun úr olíu- og gasvinnslu Norðmanna á norska landgrunninu í áföngum eftir að hún nær hámarki sínu árið 2025. Þetta kemur fram í umfangsmikilli úttekt og spá norsku landgrunnsstofnunarinnar, Sokkeldirektoratet, um framtíð þessa fjöreggs norsks iðnaðar og útflutnings sem verið hefur allar götur síðan 1970.

„Framleiðslan eykst nú fram til 2025. Það ár væntum við þess að hún verði á pari við það sem hún var árið 2006. Frá 2025 reiknum við svo með dvínandi framleiðslu,“ segir Kjersti Dahle, yfirumsjónarmaður tækni-, greiningar- og samræmingarmála hjá stofnuninni við norska ríkisútvarpið NRK.

Samdráttur um helming 2050

Stóra spurningin er hve ört muni draga úr framleiðslunni og hefur landgrunnsstofnunin dregið upp þrjár framtíðarsýnir hvað það varðar. Allar gera þær ráð fyrir samdrætti í framleiðslu en hve ör hann verður ræðst af mismunandi þróun olíuleitar og tækniframfara sem hafa verið í stöðugri framrás og ekki eru mörg ár síðan ný tækni við að lyfta vinnanlegum olíujarðlögum í olíulindum undir hafsbotni, með því að dæla lofti undir þau, gerði það að verkum að tekið var að opna gamla brunna, sem áður hafði verið lokað, og hefja á ný vinnslu úr undirliggjandi lind.

„Nú sjáum við fram á að árið 2050 verði framleiðslan helmingurinn af því sem nú er,“ heldur Dahle áfram og bætir því við að þessi þróun sé eðlileg miðað við aðstæður og við þessu hafi verið búist. Að teknu tilliti til gangs mála nú um stundir sé ekki hægt að miða við annað en að framleiðslan minnki og nemur samdrátturinn í heild nánast því verðmæti sem nú liggur í olíusjóði Norðmanna, 18,3 billjónum norskra króna, jafnvirði 238,6 billjóna íslenskra króna.

Það sem hægt gæti á þessari þróun að mati Dahle og stofnunar hennar er aukin olíuleit, framfarir í tækniþróun og skemmri tími milli þess sem nýjar olíulindir finnast og vinnsla úr þeim hefst.

„Allir þrír framtíðarmöguleikarnir byggja á þeirri forsendu að dregið verði úr olíu- og gasvinnslu í heiminum til að uppfylla skilyrði Parísarsáttmálans [í loftslagsmálum],“ segir Dahle að lokum.

NRK

E24

Skýrsla landgrunnsstofnunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert