Ný rannsókn á hendur hinum hömlulausa Andrew Tate

Andrew Tate gaf sig á tal við blaðamenn í dag …
Andrew Tate gaf sig á tal við blaðamenn í dag þegar hann var færður til yfirheyrslu af rúmensku lögreglunni eftir 10 klukkustunda áhlaup á heimili hans í Búkarest. Daniel MIHAILESCU / AFP

Rúmenska lögreglan handtók í dag hinn umdeilda áhrifavald, Andrew Tate, sem bíður nú réttarhalda vegna mansals og nauðgunarkæru. Handtakan átti sér stað í kjölfarið á húsleit á heimili hans sem er hluti af nýrri rannsókn tengdri ólögráða einstaklingum.

Tate, sem nú er 37 ára, og bróðir hans Tristan, 36 ára, eru í 24 klukkustunda gæsluvarðhaldi og verða yfirheyrðir vegna málsins. Rannsóknin beinist m.a. að mansali og kynferðislegu athæfi með ólögráða einstaklingum og peningaþvætti.

Tate bræðurnir eru þegar sakaðir um að hafa stofnað skipuleg glæpasamtök árið 2021 í Rúmeníu og Bretlandi. Þeir hafa neitað ákærunum.

FJöldi ákæra í aðskildum málum

Árið 2022 voru þeir handteknir í Búkarest og haldið í þriggja mánaða gæsluvarðhaldi áður en þeim var sleppt. Bræðurnir eru undir eftirliti á meðan þeir bíða réttarhaldanna. 

Þeir eiga einnig yfir höfði sér ákærur í öðrum aðskildum málum; vegna nauðgunar, líkamsárása og skattsvika í Bretlandi.

Tate komst fyrst í sviðsljósið árið 2016 þegar hann kom fram í raunveruleikaþáttunum Big Brother. Hann hvarf fljótlega úr þáttunum eftir að myndband var birt sem sýndi hann ráðast á konu.

Í kjölfarið sneri hann sér að samfélagsmiðlum til að koma öfgakenndum skoðunum sínum á framfæri. Vera hans á samfélagsmiðlum hefur gert hann að einum þekktasta áhrifavaldi heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert