Ráðist á flutningaskip úti fyrir Jemen

Flutningaskip í höfninni í Hodeida í Jemen. Uppreisnarmenn Húta hafa …
Flutningaskip í höfninni í Hodeida í Jemen. Uppreisnarmenn Húta hafa ítrekað skotið á flutningaskip á Rauða hafinu sem um tólf prósent allra vöruflutninga heimsins fara um. AFP

Þremur skeytum var skotið á flutningaskip úti fyrir jemensku borginni Hodeida í morgun sem löskuðu það, meðal annars með þeim afleiðingum að stýrisbúnaður þess varð óvirkur að hluta.

Frá þessu greinir breska sjóferðaöryggisstofnunin UKTMO og enn fremur því að áhöfn skipsins hafi orðið með vopnum og skotið á tvö lítil sjóför sem sóttu að flutningaskipinu, annað með þrjá til fimm manns um borð en hitt tíu.

Vilja hindra flutninga til Ísraels

Ekki hafa borist fregnir af manntjóni meðal áhafnar skipsins sem ráðist var að og hafa enn sem komið er engin herská samtök lýst ábyrgð á árásinni en böndin berast að uppreisnarmönnum Húta sem eru hliðhollir Palestínumönnum í skærum þeirra við Ísrael og hafa undanfarin misseri skotið flugskeytum og ráðist með árásardrónum að öllum flutningaskipum sem þeir telja líklegt að flytji vörur til Ísraels.

Með háttsemi sinni hafa Hútar valdið truflunum á vöruflutningum um Rauða hafið en um það fara jafnan um tólf prósent allra millilandavöruflutninga heimsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert