Trump skýtur fast á Kamölu bakvið skothelt gler

Forsetaframbjóðandi repúblikana, Donald Trump, heldur ræðu fyrir stuðningsmenn sína bakvið …
Forsetaframbjóðandi repúblikana, Donald Trump, heldur ræðu fyrir stuðningsmenn sína bakvið skothelt gler í Norður-Karólínu í dag. Peter Zay / AFP

Í dag hélt Donald Trump sinn fyrsta utandyra kosningaviðburð síðan morðtilraun gegn honum misheppnaðist fyrir mánuði síðan. Eins og vant er hélt hann á lofti háðsglósum gegn andstæðingi sínum, Kamölu Harris, bakvið skothelt gler á fjöldafundinum í Norður-Karólínu.

Trump sagði Harris „róttækustu vinstrimanneskju“ í framboði og að milljónir starfa muni „hverfa á einni nóttu“ sigri hún kosningarnar í nóvember. Á hann einnig að hafa sagt: „Ef Kamala vinnur í nóvember er nánast öruggt að af þriðju heimsstyrjöldinni verði.“

Fór út í mannfjöldann

Leyniþjónustan mælti með því að Trump héldi sig við viðburði innandyra. Annars hefur leyniþjónustan ekki viljað svara opinberlega um öryggisaðgerðir og undirbúning fyrir fundinn í dag.

Á einum tímapunkti í ræðu sinni yfirgaf Trump sviðið og gekk inn í mannfjöldann til að huga að áhorfanda sem átti við heilsufarsvandamál að stríða.

Norður-Karólína er eitt af svokölluðum sveifluríkjum forsetakosninganna sem búist er við að muni skera úr um úrslitin þann 5. nóvember.

Úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum eru ekki ákvörðuð með heildaratkvæðum á landsvísu heldur ríki fyrir ríki. Hvert ríki hefur mismikið vægi í úrslitunum. Alls sjö ríki eru háð þessari óvissu og þar eyða frambjóðendurnir mestum tíma og peningum í kosningabaráttunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert