Danski dómsmálaráðherrann Peter Hummelgaard hyggst róa öllum árum að því að efla samstarf greiningardeilda lögreglu Danmerkur og Svíþjóðar, meðal annars í því augnamiði að afhjúpa höfuðpaura með aðsetur erlendis sem stjórna skipulagðri glæpastarfsemi í norrænu ríkjunum.
Hefur Hummelgaard í þessu skyni boðið Gunnari Strömmer, sænskum starfsbróður sínum, til fundar í Kaupmannahöfn þar sem hugsanlegt samstarf verður rætt.
„Ég hyggst nýta fundinn til að ræða hvað við fáum gert hér og nú,“ segir Hummelgaard við danska ríkisútvarpið DR, „hvernig við getum aukið greiningarsamstarfið og orðið enn öflugri við að ná til bakmannanna sem augljóslega dvelja í öðrum löndum en Danmörku og Svíþjóð og kippa þaðan í spottana.“
Danska lögreglan og dómsmálaráðherra hafa áður tjáð sig um væringar milli afbrotagengisins Loyal to Familia og ónefndrar klíku annarrar. Báðir starfa hóparnir í Danmörku, sá fyrrnefndi skipaður fjölda innflytjenda en einnig Dönum í húð og hár og báðir kaupa hóparnir þjónustu af sænskum glæpagengjum eins og mbl.is hefur fjallað um áður.
„Áríðandi er að koma á viðræðum við Svíþjóð þar sem að öllu jöfnu eru það sænskir ríkisborgarar eða fólk frá Svíþjóð sem er ráðið til að gera árásir hér,“ segir ráðherra enn fremur. Nokkur skref hafi þegar verið stigin í átt að þessu eflda samstarfi en betur megi ef duga skuli og vill ráðherra nú herða róðurinn.
„Við þörfnumst styrks samstarfs við hvort tveggja Svíþjóð og ekki síður önnur Evrópusambandsríki sem gerir okkur kleift að vera áhrifaríkari, harðari og kerfisbundnari við að fá [höfuðpaurana í erlendum ríkjum] framselda svo reka megi mál þeirra,“ segir Hummelgaard.