18 ára og klífur alla hæstu tinda heims

Hinn 18 ára nepalski fjallagarpur, Nima Rinji Sherpa, er hársbreidd frá því að verða yngsta manneskja heims til að klífa 14 hæstu fjöll heims. Um er að ræða alla tinda í heiminum sem eru hærri en 8.000 metrar en Sherpa hefur þegar klifið 13 þeirra.

Síðasti tindurinn, Shishapangma í Tíbet, bíður hans í næsta mánuði að því gefnu að stjórnvöld í Kína veiti Sherpa leyfi til að klífa hann.

Sherpa, sem hefur þegar slegið fjölda aldursmeta þegar kemur að fjallgöngum, segir markmið sitt vera að „veita nýrri kynslóð innblástur og endurskilgreina fjallamennsku“.

Margir dáið á leiðinni

Það að klífa alla 14 hæstu tindana er gjarnan talið vera eitthvað metnaðarfyllsta markmið sem fjallagarpar geta sett sér en Ítalinn Reinhold Messner var sá fyrsti til að ná því en það gerði hann árið 1986.

Síðan hafa um 40 mans fylgt í fótspor hans en margir aðrir hafa látið lífið við það að reyna að ná því.

Allir fjórtán tindarnir eru staðsettir í Himalajafjöllunum og Karakoram-fjallgarðinum en til þess að komast á topp þeirra þurfa göngumenn að fara inn í hið svokallaða dauðabelti, það er upp í þá lofthæð þar sem svo lítið er af súrefni að það ógnar lífi manns.

Hinn 18 ára Nima Rinji Sherpa á toppi Annapurna.
Hinn 18 ára Nima Rinji Sherpa á toppi Annapurna. AFP

„Ég verð ekki stressaður“

„Þegar ég er uppi í fjöllunum gæti ég dáið á hverri stundu,“ sagði hinn ungi Sherpa í samtali við fréttastofu AFP og bætti við: „Þú þarft að átta þig á hve mikilvægt lífið er.“

Þá segir hann að fjöllin hafi kennt honum að halda ró sinni.

„Ég er búinn að sannfæra mig andlega að þegar ég sé snjóflóð, vont veður, slys uppi á fjöllunum þá er ég ekki í flýti, ég verð ekki stressaður,“ sagði Sherpa og bætti við:

„Ég er búinn að sannfæra mig um að þetta sé eðlilegt uppi á fjöllum. Ég held að það hafi hjálpað mér mikið.“

Hefur lært margt af náttúrunni

Sherpa kemur af þjóðarbroti Sjerpa sem eru vel þekktir fyrir einstaka hæfileika sína og getu þegar kemur að fjallamennsku.

Fjölskylda hans er líka upp til hópa miklið fjallgöngufólk en frændi hans Mingma Gyabu Sherpa er sem stendur yngsti maðurinn til að hafa klifið tindana 14.

Í ágúst 2022 gekk Sherpa á fyrsta tindinn af 14 en það var á fjallið Manaslu sem er 8.163 metrar og þar með 8. hæsta fjall í heimi. Á þeim tíma var Sherpa 16 ára en enginn unglingur hafði klifið fjallið áður. 

Síðasta fjallið sem hann kleif var Kanchenjunga í júní en þá sló hann annað met og varð sá yngsti til að klífa þriðja hæsta fjall í heimi. 

„Ég hef lært svo margt um náttúruna, mannslíkamann, sálfræði mannsins,“ sagði Sherpa.

„Allt sem ég hef lært í heiminum lærði ég af fjallinu.“



Nima Rinji Sherpa hefur klifið 13 af 14 hæstu tindum …
Nima Rinji Sherpa hefur klifið 13 af 14 hæstu tindum heims. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka