Áhrifavaldur í fangelsi fyrir að ráðast á lögreglu

Frá Dúbaí.
Frá Dúbaí. Ljósmynd/Colourbox

Bandarískur áhrifavaldur og bróðir hans hafa verið dæmdir í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa ráðist á lögreglumenn undir áhrifum áfengis í Dúbaí.

Áhrifavaldurinn heitir Joseph Lopez. Hann er fyrrverandi liðsmaður í flugher Bandaríkjanna og tók eitt sinn þátt í fegurðarsamkeppninni herra Bandaríkin. Hann og bróðir hans, Joshua, voru handteknir fyrir að ráðast á lögreglumenn í Dúbaí eftir að hafa verið úti að skemmta sér. Þeir eru sagðir hafa streist á móti við handtöku og ollið skemmdum á eigum hins opinbera, að sögn yfirvalda í Dúbaí. 

Lögreglumaður meiddist og lögreglubifreið skemmd

Bræðurnir voru sektaðir um 1.428 dali, sem samsvarar um 196.000 kr., og dæmdir í þriggja mánaða fangelsi. Þeim verður svo vísað úr landi. 

Lögreglumaður er sagður hafa meiðst í átökunum auk þess bræðurnir eru sagðir hafa skemmt lögreglubifreið er þeir reyndu að komast á undan lögreglu.

Var byrlað ólyfjan

Bresk samtök sem kallast Detained in Dubai, sem hafa eftirlit með dómstólum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum gagnvart Bretum og ferðafólki, segja að bræðunum, sem eru frá Ohio, hafi verið byrlað ólýfjan og þeir rændir þegar þeir voru að skemmta sér á snekkju í Dúbaí. 

„Það er augljóst að þeir hafa verið skotmark þrjóta sem ætluðu sér að ræna þá,“ segir Radha Stirling, framkvæmdastjóri samtakanna. 

„Þeim var boðinn einn drykkur um borð í snekkjunni og það næsta sem þeir muna er að þeir óeinkennisklæddir lögreglumenn eru að leiða þá á brott,“ bætti hún við. 

Stirling segir að bræðurnir hafi ekki gert sér grein fyrir því að um lögreglumenn væri að ræða og þeir töldu að það væri verið að nema þá á brott. 

Núverandi herra Louisiana

Fram kemur í umfjöllun AFP að Joseph Lopez, sem er 24 ára gamall, eigi ríflega 100.000 fylgjendur á Instagram. Þá er hann núverandi herra Louisiana.

Hann átti að taka þátt í herra Bandaríkin 2024 en í kjölfar handtökunnar er öll von úti um að hann geti verið á meðal þátttakenda. En keppnin fer fram í nóvember. 

Dúbaí er helsti ferðamannastaður Sameinuðu arabísku furstadæmanna, sem samanstendur af sjö furstadæmum þar sem löggæsla er ströng. Þar ríkir núllstefna gagnvart neyslu fíkniefna og þá er bannað að drekka áfengi á stöðum sem hafa ekki sérstakt áfengisleyfi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert