„Brautarpallsmorðinginn“ ákærður á ný

„Brautarpallsmorðinginn“ á leið af vettvangi í Umeå árið 2013. Þá …
„Brautarpallsmorðinginn“ á leið af vettvangi í Umeå árið 2013. Þá hlaut hann fjórtán ára dóm. Nú er hann ákærður á ný. Skjáskot/Upptaka úr öryggismyndavél

Rúmlega þrítugur karlmaður sætir nú ákæru fyrir héraðsdómi í sænsku höfuðborginni Stokkhólmi þar sem honum er borið á brýn að hafa ráðist á konu á fimmtugsaldri í Hökarängen í suðurhluta borgarinnar, hert að öndunarvegi hennar og haldið henni niðri. Varðar ákæran tilraun til manndráps.

Rúmlega tvítugur íbúi í nágrenninu heyrði neyðaróp konunnar inn um glugga sinn og hljóp út. Árásarmaðurinn hafði þá forðað sér af vettvangi en sneri þangað aftur skömmu síðar á meðan bjargvætturinn stumraði yfir konunni. „Þetta er hann!“ hrópaði hún og nágranninn stökk þá á árásarmanninn og hélt honum þar til lögregla kom aðvífandi.

Tilviljun ein ráðið

Eftir handtöku mannsins kom fljótlega í ljós að þar fór dæmdur drápsmaður, „brautarpallsmorðinginn“ svokallaði, eða perrongmördaren á sænsku, sem hafði hlotið fjórtán ára dóm fyrir að skjóta konu til bana á brautarpalli í Umeå árið 2013. Hlaut hann reynslulausn fyrir tveimur árum eftir að hafa afplánað níu ár.

Í ákæru gegn manninum, fyrir árásina í vor, kemur fram að tilviljun ein hafi ráðið því að konan hlaut ekki bana af gjörðum hans og megi þakka það manninum sem kom til bjargar á elleftu stundu – eftir að henni auðnaðist að kalla á hjálp.

Segir Markus Hankkio saksóknari við sænska ríkisútvarpið SVT að árás ákærða árið 2013 hafi einnig verið beint gegn konu sem hann þekkti ekki að nokkru leyti.

Geðrannsókn, sem árásarmaðurinn gekkst undir á meðan hann sat í gæsluvarðhaldi, kveikti grun um að hann hefði liðið alvarlega geðtruflun (s. allvarlig psykisk störning) á verknaðarstundu síðari atlögunnar.

Ákærði neitar sök í málinu.

SVT

SVT-II (viðtal við bjargvættinn Anton)

SVT-III (drápið á brautarpallinum)

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert