Fannst á lífi eftir fjögurra daga leit

Maður á báti í Rauðá í Hanoi, höfuðborg Víetnams.
Maður á báti í Rauðá í Hanoi, höfuðborg Víetnams. AFP/Nhac Nguyen

Sex ára drengur sem hafði verið týndur í fjóra daga fannst á lífi í skógi í fjalllendi í norðurhluta Víetnams.

Lögreglan í landinu greindi frá þessu.

Lýst var eftir drengnum á laugardaginn eftir að hann skilaði sér ekki heim með systkinum sínum að lokinni veislu hjá ættingjum í héraðinu Yan Bai.

Við leitina var meðal annars þurrkuð upp tjörn þar sem óttast var að drengurinn hefði fallið ofan í. Yfir 200 manns tóku þátt í leitinni að drengnum þá fjóra daga sem hann var týndur.

Borðaði lauf og ávexti

Hann fannst loksins í gær. „Okkur var sagt að drengurinn væri þreyttur. Þau gáfu honum mat og könnuðu heilsufar hans. Hann er í góðu ásigkomulagi núna,“ sagði lögreglan við AFP.

Ríkisfjölmiðill í Víetnam greindi frá því að drengurinn hefði týnst í skóginum. Til að lifa af drakk hann vatn úr lækjarsprænum og tíndi lauf og villta ávexti sem hann kannaðist við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert