Fyrsta tilfelli mpox staðfest í Asíu

Bólusetningarlyf gegn apabólu, nú mpox.
Bólusetningarlyf gegn apabólu, nú mpox. AFP

Fyrsta tilfelli mpox-veirusjúkdómsins, sem áður kallaðist apabóla, hefur komið upp í Taílandi og er þar með það fyrsta í Asíu.

Um er að ræða 66 ára evrópskan karl sem býr í Tælandi og kom heim úr ferð til Afríku 14. ágúst.

„Við höfum fylgst með 43 einstaklingum sem hafa verið í nánu sambandi við sjúklinginn og hingað til hafa þeir ekki sýnt nein einkenni en við höldum áfram eftirliti í 21 dag,“ segir í yfirlýsingu frá heilbrigðisyfirvöldum í Taílandi.

Mpox-tilfellum og dauðsföllum fjölgar í Afríku, þar sem greint hefur verið frá faraldri í Kongó, Búrúndí, Kenía, Rúanda og Úganda síðan í júlí.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi fyrir lýðheilsu á heimsvísu vegna nýja afbrigðisins af mpox og hefur hvatt framleiðendur til að auka framleiðslu bóluefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert