Robert F. Kennedy Jr. mun halda ræðu á morgun og gera margir ráð fyrir því að hann muni draga forsetaframboð sitt til baka og jafnvel lýsa yfir stuðningi við Donald Trump, forsetaframbjóðanda repúblikana.
Kennedy mun halda ræðu á morgun í Pheonix í Arizona-ríki til að „ávarpa þjóðina“.
Fréttamiðlarnir CNN og ABC hafa heimildir fyrir því að hann muni formlega draga forsetaframboð sitt til baka og að hann sé í samræðum við kosningateymi Trumps um að lýsa yfir stuðningi við hann.
Kennedy var spurður af ABC hvort að hann myndi lýsa yfir stuðningi við Trump og þá sagði Kennedy:
„Ég mun hvorki staðfesta það né hafna.“
Nicole Shanahan, varaforsetaefni Kennedys, sagði í hlaðvarpsþætti á þriðjudag að framboðið væri að íhuga hvort að það ætti að taka höndum saman með Trump til að koma í veg fyrir að Kamala Harris, forsetaframbjóðandi demókrata, myndi vinna kosningarnar.
Kosningastjóri Kennedys, Amaryllis Fox, sendi kosningateyminu tölvupóst á miðvikudagsmorgun þar sem hann þakkaði þeim fyrir mikla vinnu – en gaf til kynna að ákvörðun um framhaldið hefði ekki verið tekin, að sögn heimildarmanns ABC sem þekkir til tölvupóstsins.
Kennedy hefur framan af ári mælst með yfir 10% stuðning samkvæmt RealClear Politics, sem er umtalsvert miðað við frambjóðanda sem er hvorki í framboði fyrir demókrata né repúblikana.
Aftur á móti hefur stuðningur við hann dalað yfir sumarið og þá sérstaklega eftir að Harris bauð sig fram. Nú mælist hann með 4,5% stuðning.
Þó fylgið hans sé ekki mikið á landsvísu þá geta örfá atkvæði hér og þar skipt sköpum í sveifluríkjunum fyrir bæði Trump og Harris.
Eins og mörgum er kunnugt um þá bauð hann sig upphaflega fram í forvali demókrata en ákvað svo að fara í forsetaframboð sem óháður. Á morgun kemur líklega í ljós hver hans næstu skref verða.