Norðmenn framleiða flugskeyti í Ástralíu

Flugskeytin sem Kongsberg mun smíða í Ástralíu eru til notkunar …
Flugskeytin sem Kongsberg mun smíða í Ástralíu eru til notkunar gegn skotmörkum á hafi, svokölluð NSM eða Naval Strike Missiles. Ljósmynd/Kongsberg Defence & Aerospace

Norska hergagnaverksmiðjan Kongsberg Defence & Aerospace hyggst færa út kvíarnar og hefja rekstur flugskeytaverksmiðju í Newcastle í Austur-Ástralíu, um 120 kílómetra norður af Sydney, þar sem framleidd verða flugskeyti fyrir ástralska herinn auk þess sem verksmiðjan mun annast viðhald þeirra.

Leggja áströlsk stjórnvöld fram 850 milljónir ástralíudala til að standa straum af byggingu verksmiðjunnar en sú upphæð nemur tæpum 80 milljörðum íslenskra króna. Fjallar Reuters-fréttastofan meðal annars um verksmiðjuna væntanlegu.

Stærsta verksmiðjan utan Noregs

„Bygging verksmiðjunnar hefst samkvæmt áætlun síðar á árinu og er stórt skref fram á við fyrir ástralskan varnarmálaiðnað,“ skrifar varnarmálaráðuneyti landsins í tilkynningu. Forstjóri Kongsberg Defence & Aerospace, Eirik Lie, segir í tilkynningu fyrirtækisins að flugskeytaverksmiðjan verði sú stærsta utan Noregs á vegum þess en Kongsberg heldur úti starfsemi í á þriðja tug landa.

„Þetta er áfangi fyrir Kongsberg og norskan varnarmálaiðnað,“ segir Bjørn Arild Gram varnarmálaráðherra Noregs í samtali við norska ríkisútvarpið NRK og bendir auk þess á að norsk hönnun varnarbúnaðar hafi stuðlað að auknu öryggi á heimsvísu.

Í byrjun september leggur ráðherra upp í langferð um Asíu og Ástralíu og mun meðal annars vera viðstaddur formlega opnun annarrar verksmiðju Kongsberg í Adelaide í Suður-Ástralíu. Segir hann Kyrrahafssvæðið hafa síaukna þýðingu fyrir Noreg enda hafi landið töluvert fram að færa á sviði varnarmála.

NRK

Reuters

Army Recognition

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert