Sonur Walz tárvotur: „Þetta er pabbi minn!“

Tim Walz ávarpaði landsfund demókrata í gær.
Tim Walz ávarpaði landsfund demókrata í gær. AFP/Saul Loeb

Tim Walz, varaforsetaframbjóðandi demókrata, tók formlega við útnefningu flokksins á landsfundinum í gær. Í ræðu hans vakti hann meðal annars athygli á tíma sínum sem kennari og sem þjálfari í amerískum fótbolta.

„Við höfum 76 daga, það er ekkert. Það verður tími til að sofa þegar við erum dauð,“ sagði hann í ávarpi sínu. „Við ætlum að skilja allt eftir á vellinum, þannig munum við halda áfram. Þannig munum við snúa við blaðinu gegn Donald Trump.“

Fjölskylda Walz sat á fremsta bekk þegar hann flutti ræðuna og athygli vakti þegar Gus Walz, sonur Tim Walz, sagði stoltur og tárvotur: „Þetta er pabbi minn!“

Vakti athygli á fyrri verkum

Áhorfið á landsfundi í Bandaríkjunum er mikið og því var þetta góður vettvangur fyrir Walz til að kynna sig almennilega fyrir þjóðinni, en margir kannast ekki við hann. Hann lýsti æsku sinni og uppvexti í smábænum Butte í Nebraska-ríki og vakti athygli á þjónustu sinni í þjóðvarðliði Bandaríkjahers.

Walz var kjörinn ríkisstjóri Minnesota árið 2018 og hefur almennt verið nokkuð vinstrisinnaður í því embætti.

Hann vakti athygli á því sem hann hefur gert sem ríkisstjóri og nefndi sem dæmi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum, verndað aðgengi að fóstureyðingum og fæðingarorlof.

Fjölskylda Walz sat á fremsta bekk og það vakti óneitanlega …
Fjölskylda Walz sat á fremsta bekk og það vakti óneitanlega athygli hversu stoltur Gus Walz var af pabba sínum. AFP/Getty Images/Andrew Harnik

„Kamala Harris mun standa með þér“

Hann skaut föstum skotum að Trump nokkrum sinnum í ræðunni og sagði góða leiðtoga „ekki eyða öllum deginum í að móðga fólk og kenna öðrum um“.

Lítið hefur komið fram um stefnumál Harris verði hún kjörinn forseti en Walz sagði að vinni þau kosningarnar þá verði skattar lækkaðir á millistéttina, lyfjakostnaður lækkaður og að hægt verði að kaupa húsnæði á viðráðanlegu verði.

„Sama hver þú ert, Kamala Harris mun standa með þér og berjast fyrir frelsi þínu til að haga málum þínum eins og þú vilt. Því það er það sem við viljum sjálf og það er það sem við viljum fyrir nágranna okkar.“

Hann vakti einnig athygli á því að hann styddi við stjórnarskrárvarinn rétt Bandaríkjamanna til þess að eiga skotvopn en að hann setti þó öryggi barna í forgang.

Áætlað er að hátt í 50 þúsund manns séu á …
Áætlað er að hátt í 50 þúsund manns séu á landsfundi demókrata. AFP/Mike Segar

Wall Street Journal

CBS

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert