Átta almennir borgarar drepnir í Úkraínu

Maður skoðar illa farinn bíl í Karkív fyrr í mánuðinum …
Maður skoðar illa farinn bíl í Karkív fyrr í mánuðinum eftir árás Rússa. AFP/Sergey Bobok

Átta almennir borgarar hafa verið drepnir í árásum Rússa víðsvegar um Úkraínu, að því er stjórnvöld í landinu greindu frá.

Um tvö og hálft ár eru liðin síðan Rússar réðust inn í nágrannaríki sitt Úkraínu.

Tveir voru drepnir í Sumy-héraði í norðausturhluta Úkraínu og í Karkív-héraði voru tveir almennir borgarar til viðbótar drepnir. Björgunarfólk fjarlægði jafnframt eitt lík úr húsarústum í Karkív eftir árás sem var gerð fyrr í þessari viku.

Vadym Filashkin, héraðsstjóri í Dónetsk, greindi einnig frá öðru dauðsfalli í héraðinu eftir árás Rússa.

Úkraínskur hermaður að störfum í Dónetsk-héraði.
Úkraínskur hermaður að störfum í Dónetsk-héraði. AFP

Rússnesk stjórnvöld hafa haldið áfram sókn sinni inn í Dónetsk-hérað á sama tíma og þau reyna að stöðva gagnsókn Úkraínumanna inn í þeirra eigin hérað, Kúrsk.

Úkraínumenn hafa flutt almenna borgara á brott frá borginni Pokrovsk og svæðum í nágrenni hennar vegna bardaga.

Í borginni Kerson í suðurhluta Úkraínu voru tveir almennir borgarar drepnir og fimm særðust, að sögn héraðsstjórans Oleksandr Prokudin.

Kerson var frelsuð haustið 2022 en Rússar hafa þó haldið áfram árásum á hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert