Kafarar fundu í dag lík hinnar 18 ára gömlu Hönnuh Lynch við leit undan ströndum Sikileyjar þar sem snekkjan Bayesian sökk á mánudag.
Sjö manns var saknað eftir slysið og er Lynch sú sjöunda sem finnst.
AFP greinir frá.
Hannah var dóttir breska auðjöfursins Mike Lynch sem lést einnig í slysinu.
Hannah hafði nýlokið lokaprófum sínum í skóla og var að undirbúa sig fyrir nám í enskum bókmenntum við Oxford-háskóla.
Siglingin á skútunni átti að vera fögnaður fyrir fjölskyldu Lynch eftir nýafstaðna sýknudóminn yfir Mike Lynch í stórfelldu svikamáli í Bandaríkjunum.
Stormurinn skall hins vegar skyndilega og leiddi til þess að skútan sökk hratt.
Harmleikurinn hefur vakið upp margar spurningar um hvers vegna skútan sökk svo hratt, sérstaklega þar sem önnur skip í nágrenninu urðu ekki fyrir áhrifum.
Ítölsk yfirvöld rannsaka nú tildrög slyssins.