Elínborg Una Einarsdóttir
Á forsíðum margra helstu vefmiðla heims má nú finna fréttir um gosið sem hófst á Reykjanesskaga fyrr í kvöld.
Á vef New York Times er til dæmis viðtal við Matthew James Roberts, framkvæmdastjóra þjónustu- og rannsóknarsviðs á Veðurstofu Íslands, sem útskýrði fyrir blaðamönnum að jafnvel þó eldgos séu nokkuð tíð hér á landi séu þau alltaf óútreiknanleg.
Á vef BBC má þá finna beint streymi sem sýnir gosið.
CNN var sömuleiðis með stutta samantekt um gosið og aðdraganda þess en þar var talað um að Ísland væri álíka stórt og Kentucky-ríki en að þar væru samt sem áður meira en 30 virk eldfjöll sem gera landið að framúrskarandi stað fyrir eldfjallaferðamennsku.
Norrænu ríkismiðlarnir hafa líka gert gert gosinu skil en á vefjum DR og NRK má finna myndskeið af gosinu og lýsingu á atburðarás kvöldsins.