Herstöð NATO hækkar öryggisstig

Öryggisstig á NATO-flugherstöðinni í Geilenkirchen hefur verið hækkað á grundvelli …
Öryggisstig á NATO-flugherstöðinni í Geilenkirchen hefur verið hækkað á grundvelli upplýsinga sem gefa til kynna hugsanlega ógn. AFP/Ina Fassbender

Þýska lögreglan greinir frá því dag að hún sé að aðstoða við að efla öryggi á NATO-flugherstöð í vesturhluta landsins, sem hefur hækkað öryggisstig sitt vegna ótilgreindrar „hugsanlegrar ógnar“.

AFP greinir frá. 

Þetta gerist í kjölfar þess að brotist var inn í flugherstöðina í síðustu viku, á sama tíma og annað tilfelli af grunuðu skemmdarverki á þýskri herstöð átti sér stað.

Þýskaland í mikilli viðbúnaðarstöðu

„Við höfum hækkað öryggisstig á NATO-flugherstöðinni í Geilenkirchen á grundvelli upplýsinga sem gefa til kynna hugsanlega ógn,“ segir herstöðin í færslu á samfélagsmiðlinum X seint í gærkvöldi.

Þýskaland, sem er lykilbandamaður Úkraínu, hefur verið í mikilli viðbúnaðarstöðu vegna skemmdarverka og árása á hernaðarmannvirki.

Meintar innbrotstilraunir

Talsmaður lögreglunnar í Köln, nærri NATO-stöðinni, segir við AFP í dag að þar væri í gangi lögregluaðgerð á staðnum en sagði að lögreglan gæti ekki veitt frekari upplýsingar vegna rannsóknarinnar sem stendur yfir.

Í meintum innbrotstilraunum í síðustu viku segir NATO að einstaklingur hafi reynt að komast inn á stöðina en verið stöðvaður og sendur burt.

Drykkjarvatnið reyndist ómengað

Í öðru tilfelli var herstöð Bundeswehr í Köln-Wahn læst eftir að gat fannst í girðingu nálægt drykkjarvatnsgeymslum. Rannsóknir sýndu þó að drykkjarvatnið var ómengað.

Engin tengsl hafa verið staðfest milli þessara tveggja atvika.

Í apríl handtóku rannsakendur tvo þýsk-rússneska menn vegna gruns um njósnir fyrir Rússland og skipulagningu árása í Þýskalandi, þar á meðal á bandarísk hernaðarmannvirki til að grafa undan hernaðarstuðningi við Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert