Maduro lýstur réttmætur forseti

Nicolas Maduro er forseti Venesúela samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar þar í …
Nicolas Maduro er forseti Venesúela samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar þar í landi. Federico PARRA / AFP

Hæstiréttur Venesúela hefur lýst Nicolas Maduro réttmætan sigurvegara kosninganna sem fram fóru 28. júlí. Hæstirétturinn er sagður hliðhollur ríkisstjórn Maduros. 

Strax í kjölfar úrslitanna sagði stjórnarandstaðan að um viðamikið kosningasvindl væri að ræða.

Í úrskurði Hæstaréttarins segir að Maduro hafi óumdeilanlega vottað öll kosningagögn og að þar með eru niðurstöður kosninganna lögmætar og Maduro sigurvegari.

Stjórnarandstaðan mótmælir úrskurðinum

Aðeins örfáum mínútum eftir að úrskurðurinn var opinberaður mótmælti frambjóðandi stjórnarandstöðunnar, Gonzalez Urrutia, með orðinu „void“ – sem þýðir ógilt eða núll – á samfélagsmiðlinum X. „Fullveldi fólks er ekki framseljanlegt,“ bætti hann við.

Fyrr í þessum mánuði hafði Maduro sjálfur beðið dómstóla um að meta réttmæti úrslitanna þar sem hann segist hafa sigrað Urrutia með 52% atkvæða.

Landskjörstjórn hefur ekki gefið út tölfræðilegar upplýsingar vegna úrslita í kosningunum og ber fyrir sig að vera fórnarlamb netárásar. Hæstirétturinn sagði í gær að „vísbendingar væru um stórfellda netárás á kosningakerfið.“

Eftirlitsmenn telja þó að meint netárás sé afsökun fyrir því að gefa ekki upp niðurstöður atkvæðagreiðslunnar.

Misvísandi niðurstöður

Stjórnarandstaðan segir að eigin talning atkvæða sýni að Urrutia hafi hlotið meira en 2/3 atkvæða.

Urrutia sagði einnig í færslu í gær að „landið og allur heimurinn vita af hlutdrægni hæstaréttarins og þar af leiðandi vangetu hans til að leysa þessi átök“. Hann lýsir áhyggjum yfir að úrskurðurinn eigi eftir að auka á kreppuna í Venesúela.

Það hefur verið gefið út að úrskurður dómstólsins sé endanlegur.

Nú þegar hafa 27 látist í mótmælum eftir kosningarnar í Venesúela, 190 særst og 2.400 manns handteknir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka