Vopnaðir keðjusög í verslun

Lögreglan í Þrándheimi elti uppi tvo menn sem reyndu að …
Lögreglan í Þrándheimi elti uppi tvo menn sem reyndu að stela áfengi úr verslun Coop og höfðu með sér keðjusög við verknaðinn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögreglan í Þrándheimi í Noregi stóð í ströngu í morgun þegar tveir menn vopnaðir keðjusög reyndu að stela áfengi úr Coop-verslun í Klæbu í útjaðri borgarinnar um hálfáttaleytið að norskum tíma.

Eftir því sem Øystein Volden lögregluvarðstjóri greinir ríkisútvarpinu NRK frá er ekki ljóst enn sem komið er hvort mennirnir ógnuðu starfsfólki verslunarinnar með söginni.

Skömmu eftir að tilkynningin um þjófnaðartilraunina í versluninni barst var haft samband við lögreglu á ný og að þessu sinni tilkynnt um tvo menn sem komið hafi akandi að íbúðarhúsi og reynt að skipta þar um ökutæki með því að komast yfir bifreið húsráðanda.

Naglamottum beitt

Sá veitti aðkomumönnunum mótspyrnu og kom til átaka milli þeirra. Ekki er kunnugt um meiðsli bíleigandans en mennirnir höfðu ekki erindi sem erfiði og hurfu af vettvangi á þeim bíl er þeir komu þangað á.

„Mínútum síðar er okkur tilkynnt að sést hafi til bifreiðarinnar á iðnaðarsvæði skammt frá Vassfjellet,“ segir varðstjóri frá. Hafi lögregla þá lagt naglamottur á veginn sem mennirnir óku yfir er þeir komu aðvífandi og sprengdu með því að minnsta kosti einn hjólbarða bifreiðarinnar.

Áttu tvemenningarnir þá í vök að verjast og lauk eftirförinni skömmu síðar inni í skógi þar sem þeir voru handteknir og færðir í fangaklefa. Hefur lögregla nú hafið rannsókn en samkvæmt því sem talsmaður Coop greindi vefritinu Adressa.no frá varð engu starfsfólki verslunarinnar meint af þjófnaðartilraun mannanna.

NRK

Adressa.no

VG

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert