Ríki íslams lýsir ábyrgð á hendur sér

Íbúar Solingen hafa lagt kerti og blóm við svæðið þar …
Íbúar Solingen hafa lagt kerti og blóm við svæðið þar sem þrjú voru stungin til bana í gær. INA FASSBENDER / AFP

Þýska lögreglan hefur handtekið annan mann í tengslum við hnífaárásina sem varð þremur að bana í borginni Solingen í Þýskalandi í gær. Ríki íslams segir árásina „hefnd fyrir múslima í Palestínu og alls staðar,“ með vísan í stríðið á Gaza.

Í yfirlýsingu á Telegram sagði íslamskur áróðursmaður ISIS árásina hafa verið framkvæmda af hermanni íslamska rikisins. Hnífaárásin átti sér stað á 650 ára afmæli Solingen. 

Þýsk yfirvöld höfðu áður gefið út að ekki væri hægt að útiloka hryðjuverk en hafa þó ekki staðfest fullyrðinguna sem fram kom á Telegram.

Síðari maðurinn var handtekinn á heimili fyrir hælisleitendur ekki langt frá árásarstaðnum í Solingen. Ekki hefur verið staðfest hver tengsl hans við árásina eru.

Fjöldi grimmdarverka í Þýskalandi

Fyrr í dag var 15 ára drengur handtekinn vegna gruns um aðild að árásinni. En vitni segja að rétt fyrir árásina hafi drengurinn verið á tali við mann sem hugsanlega gæti verið sá sem réðst til atlögu.

Fórnarlömbin voru karlmenn á aldrinum 56 og 57 ára og 56 ára kona. Engin tengsl voru á milli fórnarlambanna. Fjórir aðrir særðust alvarlega.

Eftir röð grimmdarverka í Þýskalandi hefur landið verið á viðbúnaðarstigi vegna hugsanlegra árása íslamista.

Á árunum 2015-16 tók Þýskaland á móti meira en milljón hælisleitendum þegar þungur straumur flóttamanna lá til í Evrópu. Hefur fjöldi hælisleitenda valdið mikilli sundrung og ýtt undir vinsældir hægri þjóðernissinna (AFD).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka