„Ruslalögreglan“ grípur sóða glóðvolga

Það getur reynst dýrkeypt að ganga ekki frá ruslinu með …
Það getur reynst dýrkeypt að ganga ekki frá ruslinu með sómasamlegum hætti á Spáni. AFP

Svokölluð „ruslalögregla“ hefur gripið þúsundir Spánverja sem þykja ekki hafa gengið nægjanlega vel frá úrgangi sínum. Hafa þeir sem gerst hafa sekir um brot á lögum um frágang á rusli mátt sæta háum sektum.

Mörg dæmi eru um að einstaklingar hafi mátt þola því sem nemur hundrað þúsund króna sekt. Sem dæmi hafa fjölmargir Madrídarbúar verið sektaðir um 2000 evrur, eða því sem nemur ríflega 305 þúsund krónum, fyrir að hafa ekki sett bylgjupappa í rétta ruslatunnu.

Hver borg ákveður sínar sektir

Hverri borg er í sjálfvald sett hvernig hún hyggst framfylgja ruslalögununum sem sett voru árið 2022. Þá er þeim einnig í sjálfvald sett hve háar sektarupphæðir eru.

Í viðleitni sinni að ná til sóðanna hefur lögregla í Marbella t.a.m. á sínum snærum óeinkennisklædda lögreglumenn sem hafa það hlutverk að grípa fólk glóðvolgt sem hefur það í hyggju að koma frá sér úrgangi í ranga ruslatunnu eða að losa sig við það á víðavangi. 

Dýrir sígarettustubbar 

Hið sama er uppi á teningnum í Cádiz þar sem sem óeinkennisklæddir lögreglumenn sektuðu nýlega manneskju um 700 evrur eða ríflega 100 þúsund krónur eftir að hún skyldi eftir rusl á ströndinni.

Á Torrevieja á Alicante, sem margir Íslendingar þekkja sem sumaráfangastað, er t.a.m 150 evru sekt fyrir að henda sígarettu á jörðina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert