Forstjóri Telegram handtekinn í París

Pavel Dúrov.
Pavel Dúrov. AFP/Steve Jennings

Pavel Dúrov, fransk-rússneskur milljarðamæringur og forstjóri samskiptaforritsins Telegram, mætir fyrir rétt í dag eftir að hafa verið handtekinn á flugvellinum Le Bourget í París í gærkvöldi.

Hann var að koma frá Bakú í Aserbaídsjan og nýlentur í Frakklandi þegar hann var hnepptur í sólarhrings gæsluvarðhald.

Gefin hafði verið út handtökuskipan vegna rannsóknar á meintum brotum Telegram sem fela m.a. í sér samskipti notenda er varða eiturlyfjasmygl, neteinelti, skipulagða glæpastarfsemi og vettvang fyrir umræðu um hryðjuverk.

Dúrov er sakaður um að hafa ekki haft nein afskipti af glæpsamlegri notkun á samskiptaforritinu. Telegram hefur skuldbundið sig til að gefa aldrei upplýsingar um notendur sína.

Rússar saka Frakka um ósamvinnuþýðni

Tekin verður ákvörðun í dag um hvort Dúrov verði ákærður eða leystur úr haldi.

Rússar hafa sakað Frakka um að „neita samvinnu“ í kjölfar handtöku hins 39 ára Dúrovs. Yfirvöld í Rússlandi hafa sagst vilja leyfa ræðismanni að ná tali af Dúrov en ekki fengið nein viðbrögð frá yfirvöldum í Frakklandi.

Elon Musk eigandi samfélagsmiðilsins X og Robert F. Kennedy fyrrum forsetaframbjóðandi Bandaríkjanna eiga að hafa stigið upp fyrir Dúrov á X með færslum sem styðja hans málstað.

Í viðtali við spjallþáttastjórnandann Tucker Carlson í apríl sagði Dúrov að hann hefði fengið hugmyndina að dulkóðaða spjallforritinu Telegram í kjölfar þess að rússnesk stjórnvöld reyndu að hafa ítök í VK, samfélagsmiðli í eigu Dúrov sem hann síðan seldi.

Telegram er með aðsetur í Dubaí en þannig verst það vestrænum lögum á sama tíma og þrýst er á aðra vestræna samfélagsmiðla um að fjarlægja allt ólöglegt efni.

Hver er Pavel Dúrov?

Pavel Dúrov, sem einnig hefur verið nefndur „rússneski Zuckerberg“, varð vel þekktur í Rússlandi eftir að hann stofnaði samfélagsmiðilinn VKontakte (VK) árið 2006 þá aðeins tvítugur að aldri. Með stofnun miðilsins kom hann til móts við þarfir rússneskumælandi notenda og varð miðillinn stærri en Facebook í öllum fyrrum Sovétríkjunum.

Eftir að hafa neitað að láta rússneskum stjórnvöldum í té upplýsingar um notendur VK og vegna deilna við aðra eigendur forritsins seldi hann sinn hlut og yfirgaf Rússland árið 2014.

Dúrov setti samskiptaforritið Telegram á laggirnar árið 2013. Forritið er afar umdeilt vegna aðgerðarleysis þegar kemur að öfgafullu efni sem þar er sett inn.

Um tíma var Dúrov dularfull persóna og setti gjarnan undarlegar yfirlýsingar inn á Telegram. Hann hefur sagst lifa einmana lífi og halda sig frá kjöti, áfengi og jafnvel kaffi.

Eftir að hann flutti frá Rússlandi settist hann að í Dúbaí, hlaut ríkisborgararétt á eyjaklasanum St. Kitts og Newis í Karíbahafinu og síðan franskan ríkisborgararétt árið 2021.

Dúrov er frjálshyggjumaður og berst fyrir trúnaði á internetinu og dulkóðun skilaboða. Samkvæmt tímaritinu Forbes eru auðævi hans metin á 15,5 milljarða dollara. Dúrov er ávallt svartklæddur og hefur verið líkt við leikarann Keanu Reeves í kvikmyndinni Matrix.

Telegram gegnir lykilhlutverki í stríði Rússa og Úkraínumanna en notendur frá báðum hliðum birta greiningar sínar og myndbönd af átökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert