Ísrael og Hisbollah skiptast á höggum

Ísraelar ganga fram hjá byggingu sem varð fyrir flugskeytaárás úr …
Ísraelar ganga fram hjá byggingu sem varð fyrir flugskeytaárás úr Líbanon. AFP

Ísraelsher kveðst hafa framkvæmt fyrirbyggjandi loftárásir á skotmörk sem tilheyra Hisbollah-hryðjuverkasamtökunum í nótt eftir að hafa komist upp um áætlanir samtakanna um að ráðast á Ísrael.

Í morgun staðfestu síðan Hisbollah að „fyrst fasi“ væri hafinn í árás á Ísrael en samtökin skutu um 320 flugskeytum og drónum á 11 hernaðarleg skotmörk í Ísrael í morgun. Samtökin segja að árásin sé til þess að hefna sín eftir að Ísraelsher drap háttsettan ráðamann samtakanna.

Ísraelsher segir að um 100 herþotur hafi skotið niður og eyðilagt „þúsundir“ flugskeyta frá Hisbollah á fleiri en 40 svæðum.

Þrír drepnir

Ísrael segist nú halda áfram að „fjarlæga ógnir“ með því að ráðast á svæði í Suður-Líbanon.

Að minnsta kosti þrír féllu í árásum Ísraelshers á Suður-Líbanon, að sögn heilbrigðisyfirvalda í Líbanon.

En „afar lítið tjón“ varð eftir árás Hisbollah á Ísrael, að sögn Ísraelshers. 

Hasan Nasrallah, leiðtogi Hesbollah, mun flytja ræðu í dag kl. 15 að íslenskum tíma.

Friðargæslulið Sam­einuðu þjóðanna í Líb­anon (UNIFIL) hvetur allar stríðandi fylkingar til stillingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert