41,6 stiga hiti yfir vetur

Norðvesturhluti landsins er fremur afskekktur. Ástralía er gríðarstórt land, eða …
Norðvesturhluti landsins er fremur afskekktur. Ástralía er gríðarstórt land, eða um 75 sinnum stærra en Ísland. Ljósmynd/Colourbox

Þrátt fyrir að það sé vetur í Ástralíu þá getur orðið afar heitt í þessu gríðarstóra landi. Hitinn á norðvesturströnd landsins fór upp í 41,6 gráður og hefur hann aldrei mælst hærri á þessum árstíma.

Ástralska veðurstofa segir að hitinn hafi mælst á svæði sem tilheyrir hernum við Yampi Sound kl. 15.37 að staðartíma í dag. Þetta er 0,4 gráðum yfir fyrra meti. 

Talsmaður veðurstofunnar segir í samtali við AFP-fréttastofuna að þetta hafi verið hlýjasti dagur í ágústmánuði á öllu landinu.

Á eftir að staðfesta metið formlega

Það á eftir að staðfesta hitastigið með formlegum hætti til að stemma af allar skekkjur, t.d. hvort einhver bilun hafi mögulega verið í mælitæki, áður en hægt verður að skrá það í metabækur. 

Gamla metið var sett í ágúst 2020 þegar hitinn mældist 41,2 gráður nærri West Roebuck.

Vetur í júní, júlí og ágúst

Veturinn sunnan miðbaugs hefst í júní og stendur út ágúst. 

Vísindamenn hafa þegar spáð því að árið í ár verði það hlýjasta á jörðinni frá því mælingar hófust. Frá janúar til júlí mældist hitinn á heimsvísu 0,7 gráðum hærri yfir meðaltali áranna 1991-2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert