86 ára maður leiddi svikahrapp í gildru

Svikahrappurinn var leiddur í gildru.
Svikahrappurinn var leiddur í gildru. Samsett mynd

86 ára gamall Dani, sem er búsettur í bænum Værlose, lék lykilhlutverk þegar svikahrappar voru handsamaðir af lögreglunni á Sjálandi á dögunum.

Maðurinn var heima hjá sér þegar hann fékk símtal frá manni sem kvaðst vera frá viðskiptabanka hans og kynnti sig sem Tom.

Sagði hrappurinn við manninn að greiðslukort hans hefði lent í klóm tölvuþrjóta en Tom gæti hins vegar komið til bjargar. Bað hann manninn um setja greiðslukortið í umslag og bíða þar til maður frá bankanum kæmi til að sækja kortið.

Lögregla kom strax

Gamla manninum fannst þetta heldur skrítið og hafði samband við lögreglu í framhaldi af samtalinu við hinn meinta bankamann.

Lögregla kom strax á vettvang og um tveimur klukkustundum síðar kom rúmlega fertugur Kaupmannahafnarbúi sem kvaðst vera að sækja kortið.

Þvert á væntingar hans opnuðu lögreglumenn dyrnar í stað ellilífeyrisþegans.

Var svikahrappurinn í framhaldinu færður í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert