Rannsaka þátt skipstjórans þegar snekkjan sökk

Ítalski saksóknarinn Raffaele Cammarano boðaði til blaðamannafundar á laugardag þar …
Ítalski saksóknarinn Raffaele Cammarano boðaði til blaðamannafundar á laugardag þar sem farið var yfir rannsókn málsins. AFP

Þáttur skipstjóra lúxussnekkjunnar sem sökk skammt frá Sikiley á Ítalíu í liðinni viku er nú til rannsóknar að sögn þarlendra yfirvalda, en þau hafa hafið rannsókn á mögulegu manndrápi í tengslum við skipsskaðann. 

Skipstjórinn, hinn 51 árs gamli James Cutfield frá Nýja-Sjálandi, var á meðal þeirra 15 sem komust lífs af eftir að snekkjan Bayesian sökk. Sjö létu lífið, þar á meðal breski auðjöfurinn Mike Lynch og dóttir hans. 

Mike Lynch sést hér ásamt dóttur sinni, Hannah Lynch, sem …
Mike Lynch sést hér ásamt dóttur sinni, Hannah Lynch, sem lést einnig þegar snekkjan sökk. AFP

Saksóknarar á Sikiley greindu frá því á laugardag að verið væri að skoða hvort glæpur hafi verið framinn í tengslum við málið, m.a. hvort um vanrækslu hafi verið að ræða og manndráp. En snekkjan fórst í óveðri í dögun 19. ágúst. 

Enginn nefndur á nafn

Yfirvöld hafa ekki nefnt nein nöfn í tengslum við þá sem liggja undir grun og segja enn fremur að rannsókn málsins sé rétt að byrja. 

Lynch, sem var 59 ára gamall, hafði boðið vinum og ættingjum til að koma saman til að fagna því að hann hefði verið sýknaður í umfangsmiklu fjársvikamáli í Bandaríkjunum. 

Snekkjan, sem er 56 metra löng, sökk þegar að því er virðist lítill hvirfilbylur gekk yfir þar sem skipið lá við akkeri skammt frá Porticello, sem er ekki langt frá borginni Palermo. 

Frá björgunaraðgerðum í liðinni viku.
Frá björgunaraðgerðum í liðinni viku. AFP

Liggur á 50 metra dýpi

Umfangsmikil björgunaraðgerð hófst í kjölfarið. Alls fundust sjö lík, þar á meðal Lynch og 18 ára gömul dóttir hans. 

Snekkjan liggur á hlið á um 50 metra dýpi að því er segir í umfjöllun AFP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert